149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[16:10]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni þessa mikilvægu umræðu um flugrekstur íslensku millilandaflugfélaganna og hæstv. ráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, fyrir innlegg hans í umræðuna. Mikilvægi og umfang ferðaþjónustunnar hefur aukist verulega á undanförnum misserum, ekki síst í gjaldeyrisöflun, og eru farþegaflutningar auðvitað kjarnaþáttur í þessum uppgangi og veittri þjónustu. Að þessu leytinu til er um að ræða þjóðhagslega eða kerfislega mikilvæg fyrirtæki og er umfangið þannig að áhrifin verða meiri á hagkerfið.

Ég ætla að draga fram álit hv. fjárlaganefndar í umfjöllun um ríkisfjármálaáætlun og reyndar líka um fjárlagafrumvarp þar sem kallað hefur verið eftir sviðsmyndum um áhrif þess á hagkerfið. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar kemur m.a. fram við ríkisfjármálaáætlunina í vor að á undanförnum árum hafi umsvif í íslenskum flugrekstri stóraukist. Fjöldi þotna sem fljúga til og frá Íslandi á vegum íslensku félaganna hefur verið frá 16 vélum 2010 í 47 árið 2017 og reiknað er með að félögin verður með 57 þotur í lok þessa árs.

Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu voru um 42% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar og skiptast fyrst og fremst í tvo hluta af þjónustu innan lands og flugrekstri hins vegar sem vegur um 35–40% og leggur meiri hlutinn til að þetta verði til framtíðar greint nánar í hagskýrslum. Svo þungt vegur flugreksturinn í gjaldeyrisöflun.

Hæstv. ráðherra fór vel yfir hlutverk Samgöngustofu um eftirlit með flugrekstri og aðgerðir sem hún hefur til að grípa til við það eftirlit. En mikilvægast er að stjórnvöld séu með áætlun við slíkar aðstæður sem við höfum upplifað á síðustu mánuðum, að leggja reglulega mat á til hvaða viðbragða þarf að grípa við þær aðstæður. Eins er mikilvægt að við höldum okkur við það upplegg stjórnvalda að styrkja hagskýrslugerð um ferðaþjónustu.