149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[16:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Birgi Þórarinssyni, fyrir að taka þetta mál upp á þinginu enda um afar þýðingarmikið mál að ræða og getur skipt sköpum, bæði hvað varðar ferðaþjónustuna og einnig almennt fyrir þjóðarhag, hvernig skipast með íslensku flugfélögin.

Allt frá örófi alda eða frá því að mannskepnan reis upp á afturlappirnar hefur að því er virðist áreynslulaust flug fugla himinsins heillað þessa hægfara skepnu sem mannkynið sannarlega er ef horft er á líkamlega burði hennar. Þannig hefur maðurinn öfundað þau kvikindi sem flogið geta þöndum vængjum yfir þeim sem ekki hafa meðfædda hæfileika til að hefja sig til flugs. Síðar yfirvann maðurinn þá krafta sem héldu honum á jörðu niðri og í dag, rúmum 100 árum síðar, er flugið samtvinnað allri velferð og framförum í þjóðfélagi nútímans.

Ekki síður er flugið nátengt velferð okkar Íslendinga sem þjóðar því að nú er svo komið að flugferðir standa undir okkar helstu tekjulind, sem er ferðaþjónustan, sem hefur á örskömmum tíma skákað út öllum okkar helstu hefðbundnu atvinnuvegum sem héldu lífinu í þjóðinni um aldir. Þá má benda á að flugrekstur í landinu færir okkur fleira en ferðamenn því að mikil tækniþekking fylgir allri þjónustu og atvinnu í kringum greinina án þess að ég ætli að telja það allt upp hérna. Að auki höfum við miklar tekjur af flugumferðarstjórn á einu stærsta flugumferðarsvæði á jörðinni sem nær langt út fyrir næsta nágrenni landsins. Flugsamgöngur til og frá landinu og sá iðnaður og sú þekking sem hér safnast saman sem tengd eru flugi er okkur því afskaplega mikilvæg og hafa íslensk flugfélög að langmestu leyti sinnt þessum flugferðalögum við landið.

Herra forseti. Það er því mikilvægt að rekstrarumhverfi íslensku flugfélaganna sé sem allra heilbrigðast og að eftirlit af hálfu stjórnvalda sé með allra vandaðasta móti svo ekki komi til óvæntra kollsteypa.

Yfir þessu þarf að vaka þar sem miklir þjóðfélagslegir hagsmunir eru undir. Þannig er mikilvægt að stjórnvöld hafi undirbúna og tilbúna viðbragðsáætlun ef út af bregður í þessum efnum.