149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er verið að fjalla um fjárframlag til háskólanna. Við í Samfylkingunni leggjum til 500 millj. kr. aukningu til háskólanna. Hér hefur enginn haldið því fram að ekki hafi verið bætt í, en það er hins vegar rangt sem haldið hefur verið fram að við munum ná markmiðum OECD árið 2020. Enda hafa sérfræðingar sem við höfum rætt við hjá OECD greint svo frá að miðað við ástandið 2014, miðað við nemendafjöldann þá, miðað við verðlag þá, myndum við ná þessum markmiðum. En síðan eru bara liðin fjögur ár. Það eru allt aðrar tölur núna, það er annar nemendafjöldi þannig að við getum ekki byggt nútímann á fjögurra ára gömlum tölum.

Við leggjum því til þessa aukningu og vonumst til að fá stuðning sem flestra við það.