149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

úthlutun kvóta í makríl og veiðigjöld.

[15:11]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Já, það er rétt að við höfum deilt um það hver veiðigjaldaprósentan á að vera. Hér eru lögð til 33% en í tíð ríkisstjórnar sem hæstv. forsætisráðherra sat í var niðurstaðan 60%, þannig að það mætti skoða það. Ég spyr aftur: Hvernig á að fjármagna þennan dóm? Ég er með hugmynd að því, hæstv. forsætisráðherra, vegna þess að nú erum við með þessum veiðigjöldum að gefa útgerðinni árið 2015, sem er hvorki meira né minna en besta árið í sögu útgerðarinnar. Nú, þegar gengið er farið að síga og ýmislegt er hagstætt í rekstrarumhverfi útgerðarinnar, legg ég til að við framlengjum í eitt ár, tökum inn það sem við eigum réttmætt fyrir árið 2015 sem er, eins og ég sagði áðan, besta árið síðustu ár í sögu útgerðarinnar og notum það a.m.k. að hluta til til að borga þetta tjón sem hefur orðið.