149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[17:56]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, takk, ég kem upp aftur, þó að ég hafi í rauninni ekki fengið beina spurningu frá hv. þingmanni, einfaldlega til að ræða vernd uppljóstrara. Ég veit ekki betur en að búnar hafi verið til nokkurs konar sérreglur í kringum bankahrunið, hvað varðaði þá sem voru kannski ekki beint uppljóstrarar heldur bjuggu yfir upplýsingum um t.d. innherjaviðskipti eða eitthvað sem misfórst í þeim viðskiptum öllum í aðdraganda bankahrunsins. Þá var tekin ákvörðun um að reyna að fá fólk frekar til að greina frá upplýsingum heldur en hitt. Það var kannski ekki beint þessi vernd uppljóstrara en þó keimlíkt því sem við erum að fjalla um.

En ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þingmanns að nútímasamfélag, sem er fullt af upplýsingum, þarf að búa yfir einhvers konar verndarákvæði fyrir þá sem vilja greina frá lögbrotum, hvort sem lögbrot er framkvæmt af stofnun á vegum stjórnvalda eða einkaaðilum, það held ég að sé mjög brýnt.