149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

lyfjalög og landlæknir og lýðheilsa.

266. mál
[12:05]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar mælt var fyrir málinu á sínum tíma lýsti ég mikilli ánægju með að það væri fram komið. Ég verð að viðurkenna að ég var svolítið spennt að lesa nefndarálitið því að mér fannst ekki ljóst í upphafi hver afstaða nefndarinnar væri þannig að ég var að sjálfsögðu mjög ánægð þegar nefndin komst að þeirri niðurstöðu að samþykkja frumvarpið óbreytt, þrátt fyrir að í frumvarpinu séu reifaðir ýmsir vankantar sem einhverjir umsagnaraðilar kunna að hafa fundið á þessu.

Mig langar að spyrja um tvennt. Annars vegar átta ég mig ekki alveg á því hvers konar hjálpartæki er verið að tala um. Erum við erum við að tala um hjálpartæki varðandi brjóstagjöf eða eitthvað tengt fæðingunni eða annað þess háttar? Hins vegar langar mig að spyrja hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur út í það hvort rætt hafi verið að ganga eitthvað lengra. Ég sé í nefndarálitinu að sumir aðilar hafi talið að of skammt væri gengið með þessu.

Ég reifaði það sérstaklega í ræðu minni og hef gert það áður þessum málum tengt hvað varðar vottorð þegar ófrískum konum er ráðlagt af lækni, yfirleitt er þeim reyndar ráðlagt af ljósmóður að taka sér frí síðustu vikurnar, en það er engu að síður þannig að læknir þarf að skrifa upp á það. Ég held að þetta sé í rauninni reglugerðarmál, eftir því sem ég kemst næst þegar ég skoða þetta, því að í 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, sem ég veit að eru ekki lögin sem falla hér undir og við erum ekki að fjalla um þau hérna, er talað almennt um vottorð heilbrigðisstarfsfólks, en í reglugerðinni er svo talað um læknisvottorð.

Mig langar bara að vita hvort þessi þáttur hafi eitthvað komið til umræðu í nefndinni við þessa umfjöllun.