149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:15]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi EES-samninginn og þriðja orkupakkann hefur það legið fyrir töluvert lengi samkvæmt þingmálaskrá að stefnt er að því að leggja málið fram í febrúar. Miðað við það er málið auðvitað ekki enn komið inn í þingið. Að einhverju leyti er ótímabært að taka einhverja umræðu um málsmeðferð þriðja orkupakkans hér, þrátt fyrir að það sé ekki óeðlilegt að spyrja um mál þar sem vitað er um ýmsa fyrirvara og óvissu. Það sem ég segi því um hann er að málið í heild sinni er auðvitað bara til skoðunar. Við sögðum það og ég sagði það skýrt að við værum að skoða ákveðna þætti, að þétta enn frekar rökstuðning og svör og upplýsingar varðandi þá gagnrýni sem komið hefur fram.

Spurt er hvort ég geti heitið því að málið fari í gegn. Ég get engu heitið í pólitík þar sem hver og einn fylgir sinni sannfæringu. Mín sannfæring er sú að þar sem málið er skaðlaust, og það er eðlilegt, rökrétt framhald á fyrsta og öðrum orkupakka, sé ég ekki að það ætti að vera tilefni til að fara í einhvern leiðangur sem við höfum aldrei áður farið í þegar kemur að EES-samningnum. Þetta er eitt þeirra mála sem á eftir að koma inn í þingið og mun verða töluvert rætt um.

Varðandi veggjöldin viljum við fjárfesta meira í vegakerfinu, það er aðalatriðið. Um það ætti að geta tekist góð sátt. Leiðirnar eru margar og ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að útiloka ekki veggjöld. Það sem mér finnst skipta máli eru heildarálögur á fólk í þessu landi og þá sem heimsækja það. Breytt gjaldtaka í samgöngukerfinu er óumflýjanleg. Í rauninni hefði mér þótt fínt ef við hefðum byrjað að ræða það fyrir töluvert löngu síðan. Við getum ekki keyrt það fyrirkomulag mjög lengi (Forseti hringir.) að þeir sem keyra um á bifreiðum sem við viljum gjarnan að fólk keyri á borgi ekki neitt. Ef við náum markmiðum okkar eykst hlutfall þeirra bifreiða og á meðan molnar undan fjármögnunarleiðunum sem við höfum í dag til vegaframkvæmda. Við þurfum að hugsa það upp á nýtt og það er verkefni okkar að ná sátt um það og gera það þannig að við séum ekki að auka heildarálögur á fólk.