149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

norðurskautsmál 2018.

526. mál
[12:54]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þær skýrslur sem við höfum flutt kallast allar meira eða minna á og eiga sjálfsagt eftir að verða fleiri. Það sýnir hversu víðfeðmt þetta mál er og hvað það grípur inn á mörg svið. Það er þetta lykilsvæði sem ég ræddi um áðan.

Það sem ekki er rætt, þ.e. hernaðaruppbyggingin, við skulum segja að það sé gert af innbyrðis tillitssemi milli stórveldanna og við sættum okkur við það í bili. Varðandi björgunarmálin hafa Rússar byggt upp herstöðvar sem eru um leið björgunarstöðvar af þeirra hálfu. Vestan hafs er miklu minna um það og þá er gat þarna á milli, sem sagt Grænland, Ísland, Norður-Noregur, hafsvæði okkar hér þar sem er fullt af skemmtiferðaskipum. Þá er stóra spurningin: Hvað gerum við í því? Það er með engu móti hægt að segja að það sé með góðum skikk.

Varðandi jafnréttismálin hafa þau verið á oddinum hjá íslensku nefndinni jafnvel í mörg ár. Ég vil meina að hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir eigi þar stóran hlut að máli. Þau mál eru líka viðkvæm. Ástæðan er einfaldlega sú menning sem hefur þrifist, og ég segi það ekki í neikvæðum tón því að hver þjóð á sína menningu og hver menningarþróun á sitt ferli. Sú menning sem hefur þróast byggir á skýrri verkaskiptingu karla og kvenna yfirleitt hjá frumbyggjaþjóðum og það þarf að nálgast af mikilli virðingu og með fræðslu. Annað fólk byggir þetta svæði líka, þ.e. fólk sem á sínar menningarlegu rætur. Þar held ég að jafnrétti sé víða brogað, víða ekki með góðu móti. Þau mál eru í deiglunni og (Forseti hringir.) það er skylda okkar að halda þeim gangandi áfram og þeim umræðum sem skapast innan norðurskautsráðsráðstefnunnar hverju sinni.