149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

dánaraðstoð.

138. mál
[16:35]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um viðkvæm málefni. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem málið kemur til kasta Alþingis. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar tillögu sem gengur í kjarna sínum eingöngu út á að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að taka saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma um hana þar sem hún er leyfð, sem og tíðni, ástæður og skilyrði o.s.frv. Í tillögunni er alls ekki tekin afstaða til þess hvort æskilegt sé að dánaraðstoð verði leyfð, ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa það í huga, heldur er tilgangur hennar fyrst og fremst sá að stuðla að góðri og yfirvegaðri umræðu um þessi mál. Hún er í sjálfu sér ekki neinn fyrirboði eða fyrirheit um lagabreytingar eða að við breytum þessu, heldur eingöngu að fara vel yfir þetta mál og að dregnar séu saman upplýsingar. Hvað gerist síðan í framhaldinu er algerlega sjálfstætt mál og kemur í sjálfu sér þingsályktunartillögunni ekki beinlínis við.

Hitt er svo annað mál að mörg okkar hafa e.t.v. einhverjar skoðanir almennt á því hvort leyfa eigi dánaraðstoð, en sú umræða fer ekki fram, a.m.k. ekki innan veggja þingsins, fyrr en fram kemur frumvarp um það. En það er samt sem áður sjálfsagt að ræða aðeins efnislega um hvað dánaraðstoð er, því að það virðist vera nokkuð á reiki um hvað dánaraðstoð snýst.

Dánaraðstoð er ekki fólgin í því t.d. ef mér eða einhverjum einstaklingi dettur í hug að segja: Jæja, nú er ég orðinn þreyttur á þessu lífi og nú ætla ég að deyja og nú er það skylda læknis að hjálpa mér við það. Málið snýst ekki um það, heldur eru í þeim löndum sem tekið hafa upp dánaraðstoð settar ríkar skorður við því hvenær dánaraðstoð kemur til greina. Það er mjög mikilvægt að aðstoð af þessu tagi séu settar mjög strangar skorður til að koma í veg fyrir að hugarástand á tilteknum tíma verði til þess að einstaklingur ákveði að taka þessa afdrifaríku ákvörðun og/eða, eins og hér hefur aðeins verið minnst á, að mönnum finnist að það sé þrýstingur einhvers staðar frá á um að menn bindi eða láti binda enda á líf sitt.

Gjarnan er horft til Hollands þegar menn ræða þessi mál. Þar eru skilyrði fyrir því að dánaraðstoð sé veitt. Ég ætla að nefna þau.

Í fyrsta lagi þarf sjúklingurinn að leita til læknis og óska eftir aðstoð af þessu tagi. Læknirinn þarf að vera fullkomlega sannfærður um að ósk sjúklingsins sé af frjálsum vilja, hún sé sjálfviljug og vel ígrunduð. Læknirinn þarf enn fremur að vera sannfærður um að þjáning sjúklingsins sé viðvarandi, með öðrum orðum að ekki sé hægt að meðhöndla eða draga úr þeim sársauka og að þjáningin sé óbærileg. Þetta eru mjög ströng og afgerandi skilyrði. Þá þarf læknirinn að upplýsa sjúklinginn um ástand hans og horfur um sjúkdóminn og þá möguleika sem eru eftir atvikum á lækningu eða að draga úr þjáningum og gera líf hans þar með bærilegt. Það þarf líka að ganga úr skugga um að sjúklingurinn sé sannfærður um að engin önnur skynsamleg úrræði séu í boði. Síðan þarf tvo lækna til að fara yfir málið, þ.e. fyrsta mat læknis er endurmetið af öðrum lækni.

Við erum þess vegna ekki að tala um fólk sem er langveikt eða býr við erfiða fötlun, en er í sjálfu sér ekki þjakað af óbærilegum kvölum, jafnvel þótt tilveran sé ekki eins og best verður á kosið. Það er ekki næg ástæða, heldur þarf þjáningin að vera óbærileg þar sem engin lækning eða linun þjáningarinnar er í augsýn. Það er fyrst þá sem dánaraðstoð kemur til greina.

Einnig er minnst á að auðvitað kunni að vera svo ástatt um fólk að það beri ekki skynbragð á eða sé ekki fært einhverra hluta vegna að meta ástand sitt. Þar hafa gjarnan verið nefndir heilabilaðir sjúklingar eða alzheimer-sjúklingar, sem eru hugsanlega svo langt leiddir af sínum sjúkdóm að þeir eru ekki til þess bærir. Það er liggur í augum uppi að sjúklingur eða einstaklingur sem þannig er ástatt um fullnægir ekki skilyrðum þess njóta dánaraðstoðar eða að geta farið fram á hana, að óskin sé sjálfviljug. — Jú, kannski má orða það þannig, en varla að hún sé vel ígrunduð.

Þess vegna er mjög mikilvægt, og í hollenska kerfinu er lögð mikil áhersla á það, að fólk ræði það fyrr en seinna við lækna sína, eða lækninn sinn, ef það hefur hug á því að njóta meðferðar af þessu tagi og þá við hvaða skilyrði sú leið kynni að vera farin.

Ég leyfi mér að nefna mál í þessu samhengi, þó að það sé mál sem er aðeins af öðrum meiði, þ.e. frumvarp sem lagt hefur verið fram í þinginu um fyrirframgefna ákvarðanatöku þegar fólk er þannig statt að það hefur verið svipt valdi eða hefur ekki fullt vald á sínum málum, að það sé mjög mikilvægt áður en til þess ástands kemur, t.d. ef fólk hefur greinst með alzheimer eða af einhverjum öðrum orsökum, eða á við þannig sjúkdóma að etja að þar sé hætt við því að dómgreind þess raskist, að sjúklingurinn eða verðandi sjúklingur geti mælt fyrir um það áður en til þess ástands kemur hvað hann vill sjálfur gera ef tilteknar aðstæður koma upp.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum það í huga. En fyrst og fremst, og það er aðalatriði þessarar tillögu, er mikilvægt að við förum vandlega yfir þetta, þ.e. að við fáum heilbrigðisráðherra og ráðuneyti hans til að standa fyrir því að taka saman greinargóðar upplýsingar um það hvernig að þessu er staðið þar sem þetta hefur verið leyft og hefur tíðkast, hver reynslan er og hverjar lagareglurnar eru um þessi mál. Á þeim grundvelli er síðan hægt að taka umræðu um hið siðferðilega álitaefni hvort undir einhverjum kringumstæðum (Forseti hringir.) einstaklingur getur óskað eftir því og tekið ákvörðun um að deyja og fá til þess aðstoð.