149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

framtíð microbit-verkefnisins.

536. mál
[16:27]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hefur eiginlega snúist yfir í umræðu um umgjörð forritunar- og nýsköpunarkennslu í grunnskólum og hvatningu til skóla til þess að sinna henni, sem er mjög mikilvægt.

Mig langar að varpa þeirri spurningu inn í umræðuna hvernig þjálfun kennara er háttað og hvernig bein hvatning til kennara fer fram til þess að nýta sér smátölvur. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það hafi oft verið stærsti þröskuldurinn í forritun að það skorti á þekkingu kennara á þessu sviði.

Eins langar mig að vita hvernig árangurinn af verkefninu hafi verið metinn eða hvað sé helst hugsað til þess að meta árangurinn. Ég efast ekki um að þetta verkefni er mjög mikilvægt, ekki síst fyrir miðstigin og efstu stigin í grunnskólanum. Svona kennsla er afskaplega mikilvæg þegar búið er að byggja ákveðinn grunn í læsi og stærðfræði.