149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[15:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir framsöguna. Það er einn þáttur sem brennur mér mjög í muna núna sem ég kom ekki að í ræðu minni áðan, og mig langar til að vísa til hv. þingmanns, það er sá þáttur í frumvarpinu þar sem Hafrannsóknastofnun er í raun stillt upp beggja vegna borðsins, sem myndi nú venjulega ekki teljast til vandaðra stjórnsýsluhátta. Þar er Hafrannsóknastofnun gert að sinna bæði rannsóknum og gera tillögur og á sama tíma að taka ákvarðanir. Þetta hefur ekki verið talið farsælt. Við höfum lent í dómsmálum hvað lýtur að því, þegar rannsókn fór fram í héraði og síðan var það aðilinn sjálfur sem dæmdi í málinu sem hann hafði rannsakað. Það var talið vera mannréttindabrot, þó að það sé nú í öðrum anda. En hér erum við þó að tala um vandaða stjórnsýsluhætti.

Ég spyr hv. þingmann hvort honum finnist ekki ástæða til að við skoðum það nánar að Hafrannsóknastofnun skuli í þessu tilviki vera sett í þá aðstöðu að sitja báðum megin við borðið, bæði hvað lýtur að því að rannsaka og skoða málin og taka síðan ákvarðanir.