149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[17:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum er tengjast fiskeldi, þ.e. áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.

Það sem mig langar til að koma inn á við þessa 1. umr. málsins áður en það fer til nefndar er það atriði sem snýr að samtali atvinnuvega. Umræðan hefur snúist mikið um að það sé annaðhvort eða; fiskeldi eða ekki fiskeldi, stangveiði eða þá að allt verði í hers höndum o.s.frv.

Það er mikilvægt að mismunandi atvinnuvegir, fjölbreyttar atvinnugreinar, finni leiðir til að vinna saman þannig að allir geti unað vel við sitt. Það yrði auðvitað engin sátt um það ef til að mynda menn hættu að veiða rækju, svo dæmi sé tekið, til að styðja við þorskstofninn. Með sama hætti má segja: Það verður engin sátt um að menn stöðvi uppbyggingu þessa öfluga iðnaðar, sem vonandi er að verða til og er að slíta barnsskónum, sem er laxeldi. Ég held að menn verði að nálgast mál þannig, bæði hvað varðar þá sem hagsmuni hafa af slíku á nærsvæðum og jafnframt þá sem eru á fjarsvæðunum, sem eru t.d. veiðiréttarhafar, að menn leiti að sem tryggustum leiðum til að verja þá hagsmuni sem fyrir eru, í stað þess að nálgast mál þannig að um annaðhvort eða sé að ræða.

Hægt er að grípa til fjölbreyttra mótvægisaðgerða sem ég held að væri skynsamlegt að yrðu teknar inn í hið heildstæða mat sem áhættumatið á að vera. Ég vil nefna að áhættumatið hlýtur að þróast á næstu misserum og árum hvað slíkt varðar eftir því sem reynslunni vindur fram. En á sama tíma vil ég segja að menn verða að fara varlega í þessum efnum því að auðvitað verður þetta að virka í báðar áttir, sú nálgun að atvinnuvegir geti lifað í bærilegri sátt og samlyndi.

Þessi atvinnuvegur sem nú er að byggjast upp er lengst kominn á sunnanverðum Vestfjörðum og hefur kallað fram alveg hreint ótrúlegar breytingar á þeim byggðum sem þar eru, byggðum sem hafa verið í vörn, ég leyfi mér að segja nauðvörn, og sumar hverjar skilgreindar sem brothættar byggðir árum saman. En nú blómstrar allt. Allt í einu eru menn farnir að finna fyrir húsnæðisskorti. Drift er í bæjarfélögunum. Ný fyrirtæki verða til sem þjónusta þennan iðnað og þar fram eftir götunum.

Við hér á þingi verðum að finna leið til að útfæra reglurnar með þeim hætti að bærileg sátt sé á milli þessara hagsmunaaðila sem helst takast á núna, sem eru annars vegar þeir sem vilja styðja við og styrkja þennan iðnað sem eldið er, og hins vegar veiðiréttarhafar, sem vilja auðvitað tryggja að um auðlind þeirra verði gengið með varfærnum hætti þannig að framtíðarhagsmunum sé ekki fórnað.

Hvað þetta mál varðar held ég að atvinnuvegirnir þurfi að finna leið til að lifa í bærilegri sátt hver við annan. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða fiskeldi, veiðiréttarhafa, bændur, stóriðju, millistóran iðnað, hvað sem er, túrismann. Öll þurfum við að deila þessu landi saman.

Það er tvennt til viðbótar sem mig langar að nefna, afmörkuð atriði. Það er atriði sem snýr að því að álit Hafrannsóknastofnunar verði bindandi, þ.e. að Hafrannsóknastofnun hafi lokaorð um magn eldis á hverju svæði en ekki ráðherra. Ég held að það sé atriði sem nefndin hljóti að taka til alvarlegrar skoðunar. Það má vera að fordæmi séu fyrir einhverju sambærilegu, en ég þekki þau ekki og tæki því þó ágætlega ef mér væri bent á einhver slík. En ég held að þarna séu menn á rangri braut, að endanleg ákvörðun þurfi alltaf að hvíla hjá ráðherra, hver sem hann er hverju sinni. Það getur verið mjög mismunandi hvernig hagsmunirnir eru metnir hverju sinni.

Síðan er eitt tæknilegt atriði sem mig langar til að nefna. Það snýr að hvíldartíma eldissvæða. Hann er rammaður inn með tilteknum tímafresti núna. Mig langar til að beina því til nefndarinnar hvort ekki sé skynsamlegt að horfa þar til mats á raunstöðu hvers svæðis fyrir sig hverju sinni. Það eru mjög mismunandi aðstæður í umhverfinu á þessum eldissvæðum og svæðin hreinsa botninn mismunandi hratt. Ég held að það hljóti að vera skynsamlegt, margra hluta vegna, að menn meti þetta út frá raunstöðu en ekki út frá einhverjum fyrirframgefnum tímaviðmiðum þar sem eitt er látið yfir allt ganga, jafn fjölbreytt og eldissvæðin eru.

Að öðru leyti ætla ég ekki að koma inn á fleiri atriði núna. Það verða væntanlega efnismeiri umræður í 2. umr. eftir að hv. atvinnuveganefnd hefur farið ítarlega yfir málið. Mér heyrist að flest þau sjónarmið sem ástæða er til að koma inn á hafi komið fram í umræðunni fyrr í dag. Nefndin er vel nestuð eftir ferð sína til Noregs og ég vona að okkur takist að útfæra málið með þeim hætti að atvinnuvegirnir geti lifað í sem bærilegastri sátt saman.