149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Landsrétti var ætlað að vera gríðarleg réttarbót fyrir Íslendinga. Ólöf Nordal heitin, fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, hafði unnið að stofnun hans í þverpólitískri sátt og virtist okkur ætla að auðnast að standa vel að skipan nýs dómstigs á Íslandi, þ.e. allt þar til fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, lagði val sitt á dómaraefnum fyrir hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í lok maí 2017 og ætlaði nefndinni og þinginu örfáa daga til að afgreiða málið.

Hvernig þingmönnum átti að vera fært að leggja sjálfstætt mat á val og verklag ráðherra á þessum örstutta tíma er óskiljanlegt. Nema auðvitað ef horft er til allra þeirra risavöxnu mála sem vísvitandi er þröngvað í gegnum þingið með engum fyrirvara og engum tíma. Sú aðferðafræði er vel þekkt í þessu húsi og er margnotuð af ríkisstjórn hvers tíma til að aftengja eftirlitsgetu stjórnarandstöðunnar.

Það var ekki einungis tímaskortur sem stóð í vegi fyrir eðlilegri meðferð málsins á þinginu. Ráðherrann þáverandi kaus einnig að halda þinginu óupplýstu um að allir hennar helstu sérfræðingar og embættismenn innan ráðuneytanna höfðu eindregið ráðið henni gegn því að fara þá leið sem hún valdi við skipan dómara. Ráðherrann fyrrverandi vissi því nákvæmlega hvað hún var að gera. Hún vissi alveg jafn vel og embættismennirnir sem ráðlögðu henni að það væri andstætt rannsóknarskyldu hennar að fara gegn mati hæfisnefndar á þann hátt sem hún gerði, en hún gerði það samt. Allt frá þeim degi hefur sami fyrrverandi ráðherra boðið þingi og þjóð upp á ævintýralegan fjölda eftiráskýringa og ásakana í garð flestra stoða réttarríkisins.

Uppáhaldseftiráskýring ráðherrans fyrrverandi er sú að hún hafi talið rétt að dómarareynsla fengi aukið vægi við mat á hæfi umsækjenda. En það virðist engu máli skipta hversu oft þessi vitleysa hefur verið hrakin með vísan í gögn málsins, hún dúkkar alltaf upp aftur í málsvörn hennar og Sjálfstæðismanna. Það er kannski ekki að undra því að svipaðar eftiráskýringar hafa nýst flokknum og dómsmálaráðherrum hans vel til að réttlæta pólitískar skipanir dómara um árabil, eins og fjölmörg dæmi sanna.

Þegar Björn Bjarnason tók Ólaf Börk Þorvaldsson, frænda Davíðs Oddssonar, fram fyrir þrjá umsækjendur sem Hæstiréttur taldi hæfari var reynsla á sviði Evrópuréttar dregin upp úr hattinum. Þegar Hæstiréttur mat fimm umsækjendur hæfari en Jón Steinar Gunnlaugsson, trúnaðarvin Davíðs Oddssonar, til að gegna stöðu hæstaréttardómara bað Geir H. Haarde Hæstarétt að breyta viðmiðum sínum og auka vægi lögmannsreynslu. Þegar hæfisnefnd mat þrjá umsækjendur hæfari í stöðu héraðsdómara en son margnefnds Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, réttlætti Árni Mathiesen það með því að Þorsteinn hefði, með leyfi forseta, fjölþættari reynslu á þeim sviðum sem skiptu máli í þessu.

Í engu þessara tilvika var minnst einu orði á það í auglýsingu sem ráðherrar notuðu sem réttlætingu á því að hunsa ráðgjöf hæfisnefndar eða Hæstaréttar. Sama eftiráskýringin að breyttu breytanda hefur þannig gengið í endurnýjun lífdaga í hvert sinn sem dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins vilja ekki skipa faglega heldur flokkspólitískt í dómaraembætti. Og hún lifir enn góðu lífi.

Bráðabirgðaákvæðinu um fyrstu skipan dómara í Landsrétt var ætlað að stemma stigu við þessum pólitísku afskiptum ráðherra við skipan dómara. Fyrrverandi ráðherra, Sigríður Andersen, lét það þó ekki á sig fá heldur dró fram gömlu góðu skýringuna um nauðsyn þess að gefa einhverri ákveðinni reynslu aukið vægi við valið án þess að rökstyðja það með fullnægjandi hætti. Um leið gekk hún vísvitandi fram hjá þó nokkrum öðrum umsækjendum sem metnir höfðu verið með meiri dómarareynslu en hluti þeirra fjögurra sem ráðherrann valdi. Það fór sem fór. Ráðherrann fékk sínu framgengt og skipaði fjórmenninganna þvert á ráðleggingar, þvert á stjórnsýslulög og þvert á þá meginreglu að velja eigi hæfasta umsækjandann í opinbera stöðu hverju sinni. Hún virtist líka halda að hún kæmist upp með það, rétt eins og fyrirrennarar hennar, að skipa pólitískt í dómaraembætti og tönnlast bara á ósannindunum nógu oft þar til um hægðist.

Ráðherranum varð ekki kápan úr því klæðinu í þetta sinn því að nú hefur Mannréttindadómstóll Evrópu slegið rækilega á puttana á Sjálfstæðisflokknum sem allt of lengi hefur haft þá á kafi ofan í krúsinni. Ég neita að láta eftiráskýringar Sjálfstæðismanna birgja mér sýn eða leyfa þeim að vaða uppi með villandi og röngum málflutningi átölulaust. Látum síst af öllu afbakanir þeirra og dylgjur um Mannréttindadómstóll Evrópu og dóm hans í Landsréttarmálinu ná fótfestu í umræðunni.

Áður en ég heyri sármóðguð andsvör Sjálfstæðismanna um að þau séu bara að spyrja spurninga og vilji bara ræða dóminn, vil ég segja þetta: Sjálfstæðisflokkurinn er að grafa undan trúverðugleika dómstólsins og þeirra orðfæri hefur lítið sem ekkert með málefnalega gagnrýni á dóminn að gera. Það má alveg ræða hvort áfrýja eigi dómum, þó að ég setji stórt spurningarmerki við gagnsemi þess og dómstólasýslan raunar líka. Það sem ekki á að gera er að halda því ítrekað fram að dómstóllinn hafi verið notaður í pólitískum tilgangi, án þess að hafa fyrir því nokkur haldbær rök. Eða að tala um að dómstólar á Íslandi hafi framselt vald sitt til erlendra dómstóla. Eða að segja að dómstóllinn sé að vega að fullveldi Íslands.

Það er ekkert á bak við þetta. Þessi orðræða stenst enga skoðun og ég held að Sjálfstæðismenn viti það alveg. Mannréttindadómstóllinn og Evrópuráðið með öllum sínum sáttmálum, mannréttindasáttmálanum fremstum í flokki og öllum þeim sameiginlegu mekanismum sem tryggja að við verndum mannréttindi allra í Evrópu saman, er eitt fallegasta sköpunarverk mannkyns. Það stórvirki hefur verið unnið með þrotlausri vinnu kynslóðanna um alla álfuna í 70 ár. Og nú vill Sjálfstæðisflokkurinn bara spyrja spurninga um hvort þetta sé nokkuð svo merkilegt bákn því að Mannréttindadómstóllinn, sem hefur það hlutverk að vernda mannréttindi 830 milljón manna í allri Evrópu, komst að niðurstöðu sem Sigríður Á. Andersen kann ekki að meta.

Herra forseti. Það hefur vissulega verið stundað af nokkrum ríkisstjórnum Evrópuríkja að ráðast á trúverðugleika dómstólsins til pólitísks heimabrúks. Dönsk stjórnvöld reyndu að fljúga vængjum rasisma og útlendingaandúðar til Strassborgar, breskir stjórnmálamenn gátu ekki hugsað sér að leyfa föngum að kjósa, og menn eins og Victor Orbán, Pútín, Salvini og Erdogan hika ekki við að ráðast að undirstöðustofnunum mannréttindaverndar í Evrópu til að ýta undir sína þjóðernispopúlísku og valdhyggjusinnuðu stefnu heima fyrir.

Eins ógeðfelld og mér finnst sú herferð öll hjá þeim valdhyggjukörlum vera finnst mér hvatinn hjá Sjálfstæðismönnum jafnvel verri því að hann er svo ódýr. Ég upplifi að nú eigi að tæta í sig Mannréttindadómstólinn bara til verndar hégóma Sigríðar Á. Andersen. Það er eitthvað svo ömurlega ódýrt. Engin stefna á bak við það, bara eiginhagsmunir og tækifærismennska, eins og einhver sagði hér um daginn. Því að þó að við fáum mögulega tækifæri til að áfrýja dómnum eru hverfandi líkur á því að niðurstaða hans breytist. Dómurinn er ítarlegur og vel rökstuddur. Hann er í fullkomnu samræmi við dómafordæmi og rímar vel við þá grundvallarafstöðu dómstólsins að dómstóll sem ekki er skipaður samkvæmt lögum geti ekki talist dómstóll grundvallaður á lögum.

Það er ekki flókin afstaða. Hún hefði alls ekki átt að koma ríkisstjórninni svona hrikalega á óvart eins og hún heldur fram.

Við skulum líta fram hjá því að við Píratar höfum frá upphafi bent á að nákvæmlega þessi staða myndi að öllum líkindum koma upp, því að það þykir ekki alltaf fínt að hlusta á okkur. En þessi útkoma ætti alls ekki að koma ríkisstjórninni á óvart. Þó er haft eftir dómsmálaráðherranum fyrrverandi að ekkert hafi verið gert til að undirbúa íslenska ríkið, og þá sér í lagi dómskerfið, einn þriggja arma ríkisvaldsins, undir þessa útkomu. Ekkert plan, engar hugmyndir. Og þess vegna stöndum við hér í dag, tæpri viku eftir að dómurinn féll, í þeim veruleika að Landsréttur allur lagði niður störf í síðustu viku og staða dómstólsins er í algjöru uppnámi.

Við erum í besta falli í startholunum varðandi það að taka á málinu. En við erum í versta falli að undirbúa okkur undir fleiri mánuði, jafnvel ár, af óvissu um heilt dómstig vegna þess að ríkisstjórnin heldur að hún geti grætt eitthvað á því að áfrýja málinu.

Það er mitt einlæga mat, herra forseti, að það þjóni ekki almannahagsmunum að áfrýja þessum dómi Mannréttindadómstólsins. Ég fæ ekki séð hvernig áframhaldandi óvissa um lögmæti og virkni Landsréttar sé í þágu neins nema flekkaðrar pólitískrar arfleifðar fyrrverandi dómsmálaráðherra. Við vinnum ekki í hennar þágu hér á þessu þingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)