149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

kjör öryrkja.

[13:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Jú, ég er í þessum umrædda hópi, hann er á lokametrunum. En hvað vantar? Jú, það vantar vilja ríkisstjórnarinnar til að segja strax: Við hættum við krónu á móti krónu skerðingar. Við hættum því bara strax.

Það þarf innspýtingu þarna inn. Það er ekki alltaf hægt að bíða. Þegar ég spyr hvenær þetta eigi að gerast er sagt: Þegar frumvarpið kemur fram. Frumvarpið getur komið fram eftir tvö ár. Á þá ekkert að gera fyrir öryrkja fyrr en eftir tvö ár, eða eitt ár? Af hverju er ekki hægt að gera þetta strax til að koma til móts við fólk og sýna lit? Ríkið er búið að hafa 30 milljarða af þessum hópi, 30 milljarða. Af hverju ekki að stoppa núna og segja: Heyrðu, við setjumst bara niður, drögum pennastrik yfir þetta, borgum núna strax.

Og svo er það hitt: Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að borga þeim 200 einstaklingum, og meira en það, sem eiga engan rétt erlendis frá, borga þeim strax? Af hverju þarf jafnvel að bíða næstu tvö árin til að borga afturvirkt og framvirkt?