149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

áhættumat við innflutning gæludýra.

[14:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er alveg rétt að þessi vinna hefur dregist úr hömlu og langur vegur frá að það sé til nokkurrar fyrirmyndar. Ástæður þess í einhverjum smáatriðum kann ég ekki. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir hér, við fengum erlendan sérfræðing til að vinna þetta mál og það ásamt fleiri þáttum innan ráðuneytis hefur valdið verulegum drætti sem ég er ekki á neinn hátt að afsaka.

Ég hef spurt eftir þessu. Meðal annars á grundvelli þeirrar umræðu sem ég hef átt hér hef ég reynt að ýta á eftir þessu og síðustu upplýsingar sem ég hef fengið um málið eru þær að við eigum von á skýrslu 1. apríl nk. Það er sú dagsetning sem mér hefur verið gefin og ég ber hér inn til svars við ágætri fyrirspurn og eftirrekstri hv. þingmanns.

Svarið í þessu efni er að vinnan hefur dregist úr hömlu. Til þess liggja ýmsar ástæður og þetta eru þau bestu svör sem ég get gefið: 1. apríl nk.