149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:37]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir. Mikil aukning hefur verið á framlagi ríkisins til málefnasviða sem falla undir heilbrigðismál og mér sýnist á öllu að áfram verði aukning í þeim málaflokki. Mestur hluti fjármagns í þetta sinn fer í framkvæmdir við nýjan Landspítala og ég fæ ekki betur séð en að fyrir það gjaldi aðrar heilbrigðisstofnanir hringinn í kringum landið, þar með talin hjúkrunarheimilin.

Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að efla sérhæfða sjúkrahúsþjónustu á Landspítala með aukinni göngudeildarþjónustu. Það kallar á fjölgun starfsfólks sem miðar að því að auka afkastagetu, eins og það er orðað. Ég velti því fyrir mér hvort ekki eigi að semja á ný við sérgreinalækna utan spítalans. Einnig vakna spurningar sem snúa að rekstri hjúkrunarheimila.

Sú áhersla sem ég vil leggja inn í fyrra sinn sem ég kem hér upp er á geðheilsu. Ráðgert er að leggja tæpa 5 milljarða í hana innan heilsugæslunnar og tekið er til fjölgunar sálfræðinga. Ég velti því fyrir mér hvort ráðherra hafi hugsað sér að víkka það út þannig að fjölgunin nái til fleiri starfsstétta, ég nefni t.d. félagsráðgjafa. Mér finnst mikilvægt að skoða það atriði sérstaklega.