149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Fyrst um hvort fjármálaáætlun styðji heilbrigðisstefnu. Já, ég tel að svo sé. Hins vegar er það ákveðin áskorun sem við erum nú að glíma við í ráðuneytinu og munum gera það með stofnunum okkar, að stilla saman fjármálaáætlun annars vegar og hins vegar fimm ára áætlun á grundvelli heilbrigðisstefnu. Vegna þess að í heilbrigðisstefnunni erum við bæði að tala um verkefni sem endurspeglast í forgangsröðun fjár og verkefni sem eru ekkert endilega þar — og öfugt. Við þurfum að tefla þessu saman. Ég tel að það sé afar mikilvægt, og það hefur verið markmið mitt, að kynna fimm ára áætlun fyrir Alþingi þannig að Alþingi sé upplýst um hana. Það er ekki lögbundið að ráðherra heilbrigðismála geri það. En við erum að tala um 30% af útgjöldum ríkisins og ég held að það sé eðlilegt að ráðherrann geri grein fyrir forgangsröðun sinni og verkefnaplani í skýrslu til þingsins á hverju ári.

Það er partur af afgreiðslu hv. velferðarnefndar á þingsályktun um heilbrigðisstefnu að leggja slíkt til og væri mjög dýrmætt ef þingið myndi taka ákvörðun um að þannig yrði um hnútana búið inn í framtíðina.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um mönnunarmálin. Það er rétt, enda kemur það fram í textum fjármálaáætlunar, mönnunarmálin eru eitt af áherslumálum heilbrigðisstefnunnar. Það er því miður ekki þannig að þau séu einskorðuð við Ísland og séu bara okkar verkefni. En þau snúast að hluta um það sem hv. þingmaður talar um sem er menntun, bæði að auka og bæta aðgengi að menntun og búa að þeim starfsmönnum sem vinna í heilbrigðisþjónustu okkar almennilegt og spennandi starfsumhverfi.

Hv. þingmaður spurði líka um verktakagreiðslur. Það er áskorun að tefla saman annars vegar fastráðnum starfsmönnum (Forseti hringir.) og hins vegar þeim sem vinna verktakavinnu.