149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það eru mjög mörg sóknarfæri er varða kennarana. Ríkisstjórnin hefur verið að kynna mjög afgerandi aðgerðir til að styðja betur við kennaranema. Ég tel að þetta séu aðgerðir þar sem er í fyrsta sinn verið að miða út frá svokallaðri færnispá, þ.e. að við vitum hver staðan er í dag og við vitum að ef ekkert verður að gert verður íslenskt samfélag í mikilli kennaraþörf árið 2032. Við erum með skýr markmið um hvernig við ætlum að fara í þessar aðgerðir.

Ég er sammála því að ég held að með auknum áhuga á kennaranámi munum við sjá fleiri fara í skiptinám og sækja sér nám erlendis. Ég er mjög vongóð um það.

Hv. þingmaður spurði líka um Hús íslenskunnar. Við fengum tilboð sem voru talsvert mikið yfir kostnaðaráætlun. Mér finnst ábyrgt á þessum tímapunkti að fara betur yfir stöðu mála og taka svo ákvörðun. (Forseti hringir.) Ég tel hins vegar að ef það er samdráttur í hagkerfinu séu það ekki endilega skilaboð að við ætlum algjörlega að draga saman seglin.