149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:39]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Til að svara fyrri spurningu hv. þingmanns, um þau viðmið og markmið sem sett eru í áætluninni, þá eru þetta alþjóðleg viðmið sem við berum okkur saman við. Það má líka spyrja hvers konar sýnileiki eða viðvera lögreglunnar væri ef við gætum alltaf svarað þessu 100%. Ég er ekki viss um að við værum að öllu leyti tilbúin að hafa það þannig.

Hvað varðar aðgerðaáætlun Íslands þegar kemur að spillingu er það einfaldlega ekki eitt þeirra verkefna sem ég hef gefið mér tíma til að velta sérstaklega fyrir mér eða kanna stöðuna á þessa sjö daga. Þeir þættir sem hv. þingmaður nefnir varðandi lögregluna myndi ég halda að við værum nú þegar að uppfylla að hluta til, en þyrfti einhvers staðar að taka saman og birta til að fullnægja því sem þar kemur fram.