149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina, við erum sammála um margt. Reyndar er það þannig að þó svo að við deilum hér á þingi er ótrúlega mikil samstaða um utanríkisstefnu Íslendinga bæði á þingi og meðal þjóðarinnar, held ég, sem er mjög gott.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að gæta hagsmuna okkar þegar kemur að EES-samningnum. Það gerist ekki af sjálfu sér. Ég er ánægður með að við skulum vera að framkvæma þá áætlun sem ég lagði upp með, sem kemur m.a. fram í skýrslunni Gengið til góðs og felur til að mynda í sér að við fjölgum útsendum fulltrúum frá fagráðuneytum í Brussel og reynum að hafa áhrif, sérstaklega á fyrstu stigum þegar er best að gera það.

Það er hins vegar ljóst, eins og kemur fram í bæði framsöguræðu og texta, að ef áætlunin fer fram óbreytt verður mikið verkefni að ná fram þeim markmiðum sem við leggjum upp með. En þetta er áætlun, ekki fjárlög hvers árs. Við vekjum athygli á ýmsu sem við teljum að mætti fara betur og síðan er það þingsins að fara yfir þegar þar að kemur.

Það liggur alveg fyrir, og ég veit að við hv. þingmenn eru sammála um það, að enginn gætir hagsmuna okkar nema við sjálf og við þurfum að forgangsraða hvað það varðar. EES-samningurinn er eðli málsins samkvæmt í forgangi en það eru mörg önnur verkefni sem við þurfum að sinna sömuleiðis. Ég tel gott að við séum að leggja fram áætlun um þau efni og ég tel gott að líta til langs tíma. En við vitum það að hér er ekki um fjárlög hvers árs að ræða heldur á fyrst og fremst að renna yfir stóru línurnar og vekja athygli á því sem við höfum áhyggjur af í þessari áætlun.