149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[21:19]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að fá að eiga orðastað við hæstv. ráðherra og tek undir allt sem ráðherra sagði. Það vill svo til að hæstv. ráðherra ber líka ábyrgð á framtíð landsins þegar kemur að nýsköpun. Handan við hornið er fjórða iðnbyltingin. Tækifærin sem blasa við okkur þar eru ótrúleg. Jarðvegurinn sem hæstv. ráðherra hefur verið að búa til er þannig að við getum verið bjartsýn á að hér geti orðið til ótrúlegur fjöldi af alls konar litlum og meðalstórum og til framtíðar stórum fyrirtækjum. Þess vegna er svo mikilvægt þegar við ræðum um að setja íþyngjandi reglur sem varða atvinnurekstur að við gerum það af háttvísi og sendum ekki þau skilaboð út úr þessum sal að það sé slæmt eða þurfi að vera slæmt að leggja allt undir, taka áhættuna, gera tilraunina en hún mistakist og viðkomandi horfi upp á fyrirtækið sitt verða gjaldþrota. Það er ekkert óeðlilegt við það, það er fullkomlega eðlilegur hlutur, það er eðlilegur og nauðsynlegur mekanismi í markaðshagkerfinu að fyrirtæki blómstri og sum falli. Þess vegna er mikilvægt og það er ánægjulegt að hæstv. ráðherra skuli tala með þeim hætti að við ætlum ekki að setja reglur til að gera það tortryggilegt að menn stundi viðskipti sem takast ekki. (Forseti hringir.) Við erum hins vegar tilbúin til að beita reglum til að koma í veg fyrir sviksamleg viðskipti.