149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

upplýsingalög.

780. mál
[14:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Þetta frumvarp er stórglæsilegt skref í átt að meiri rétti almennings á upplýsingum um starf stjórnvalda, um starf dómstóla, um starf Alþingis. Þetta frumvarp er því stórt skref í átt að meira aðhaldi sem almenningur og fjölmiðlar geta veitt handhöfum alls almannavalds.

Þetta er það sem þjóðin kallaði eftir á báðum þjóðfundunum, þjóðfundinum 2009 um þau gildi sem þjóðin vildi endurreisa landið á, þar sem heiðarleiki var langefst og gagnsæi, og á þjóðfundinum 2010 sem fjallaði um þau gildi sem stjórnarskráin ætti að grundvallast á og tillögur um hvernig væri hægt að betrumbæta hana en þar var ítrekað ákall um virkara aðhald með öllum handhöfum almannavalds. Grundvöllur þess aðhalds er náttúrlega gagnsæi og upplýsingaréttur almennings sem er verið að víkka út með þessu frumvarpi.

Þetta er það sem Alþingi samþykkti 2010 með þingsályktun Birgittu Jónsdóttur og þingmanna allra flokka á þingi um að Ísland skapaði sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á. Frumvarpið er í samræmi við stjórnarsáttmálann um opna og gagnsæja stjórnsýslu og er afrakstur vinnu starfshóps hæstv. ráðherra Katrínar Jakobsdóttur um umbætur á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Síðan er frumvarpið á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem fjórða mál forsætisráðherra og styður forsætisnefnd Alþingis í erindi það að stjórnsýsla þingsins falli undir upplýsingalög. Nú er málið loks komið inn í þingið til 1. umr. Eftir þessa umræðu mun það síðan ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og mun ég fylgja því faglega eftir þar ásamt öðrum nefndarmönnum.

Mig langar í rauninni bara að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að vera komin með þetta alla þessa leið. Þetta er búin að vera löng leið. Þetta er alveg gríðarlega farsælt skref fyrir okkur öll og ég vil bara aftur þakka innilega fyrir.