149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

fræðsla um og meðferð við vefjagigt.

249. mál
[23:41]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um fræðslu um og meðferð við vefjagigt. Eins og kom fram í máli hv. flutningsmanns er ég einn af meðflutningsmönnum að málinu. Hér er um ágætismál að ræða. Mikilvægt er að við lyftum umræðunni aðeins upp um þennan sjúkdóm og í rauninni ekki bara þennan sjúkdóm heldur marga aðra þeirra sjúkdóma sem svona, hvað eigum við að segja, falla svolítið undir radarinn. Það er ágætt að byrja á því.

Eins og hv. flutningsmaður kom inn á er vefjagigt á Íslandi andlag töluvert stórs hluta þeirrar örorku sem íslenskar konur glíma sérstaklega við. Þær búa iðulega við fordóma gagnvart sjúkdómi sínum, eru oft og tíðum ekki á yfirborðinu sjáanlega veikar eða veikindalegar. Bera þess vegna oft harm sinn í hljóði og fá kannski ekki alltaf þann stuðning eða samhygð sem þær þyrftu vegna vandamála sinna. Það er kannski að einhverju leyti vegna þess að greiningin á sjúkdómnum er fyrst og fremst það sem við kölluðum klínísk greining, þ.e. ekki eru einhverjar sértækar blóðprufur, myndgreiningar eða eitthvað þess háttar sem getur hjálpað til.

Þetta leggst á stóran hluta þjóðarinnar og af þeim hluta er langstærsti hlutinn konur. Sjúkdómurinn skerðir lífsgæði þeirra einstaklinga sem búa við sjúkdóminn. Einkennin geta verið allt frá því að vera mjög væg einkenni, sem kannski er fyrst og fremst eitthvert svona slen og þreytueinkenni, yfir í það að vera það alvarleg að þau valda algerri óvinnufærni og örorku.

Ég tel að mikilvægt sé að fá einhvers konar heildstæða mynd af sjúkdómnum sem vandamáli í íslensku heilbrigðiskerfi. Mikilvægt er að samhæfa meðferðarúrræði og bæta aðgengi sjúklinga alls staðar á landinu að meðferð.

Þingsályktunartillagan er liður í þeirri vitundarvakningu sem hv. 1. flutningsmaður talaði um að þörf væri á. Ég tel að tillagan geti ýtt við mörgum, vonandi við ráðuneyti heilbrigðismála og heilbrigðisstarfsmönnum yfirleitt, að taka þétt utan um þann hóp sem býr við þennan sjúkdóm í þeim tilgangi að reyna að finna lausnir og hjálpa fólki að ná þeirri heilsu og búa við eins góða heilsu og það mögulega getur.