149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:22]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg klár á því hvernig er best að svara þessari spurningu vegna þess að spurningin sjálf var helst til loðin.

Ókei. Ef upp kemur einhvers konar dómsmál sem fer fyrir EFTA-dómstólinn mun dómstóllinn dæma í málinu og við munum verða margs vísari, eins og alltaf þegar EFTA-dómstóllinn dæmir. Ég get í raun ekki sagt neitt meira án þess að fá eitthvert tiltekið dæmi um eitthvað sem gæti farið úrskeiðis, vegna þess að það er hægt að útfæra lög rangt á svo fjölmarga vegu, eins og við höfum því miður oft séð á Alþingi.

En varðandi rök: Við verðum svolítið að tala um hvað rök eru og hvað staðreyndir eru. Staðreynd er eitthvað sem á sér stoð í raunveruleikanum, sem byggist á öðru en tilfinningum og viðhorfi. Í tilfelli lagalegrar umræðu er ekki hægt að tala um vísindaleg rök vegna þess að lög eru ekki vísindagrein, lög eru ákveðin félagsfræði, ákveðið samkomulag sem fólk gerir sín á milli — en lögin standa á blaði. Við erum með þessar tilskipanir og reglugerðir skrifaðar á blað. Mestan part er þetta skrifað á skiljanlegu mæltu máli. Þar er þetta ekki spurning um hvað okkur finnst heldur hreinlega hvað stendur á blaðinu.

Vissulega þarf maður oft að lesa blaðið í gegn nokkrum sinnum til að átta sig á öllu samhenginu og vissulega eru til einstaklingar, svokallaðir lögfræðingar, sem hafa sérstaka menntun í því að lesa í gegnum texta sem á það til að vera tyrfinn. En í grundvallaratriðum er það ekki skoðun einhvers hvað stendur í þessum tilskipunum. En það er skoðun þegar einhver, þrátt fyrir það sem stendur í tilskipununum, þrátt fyrir það sem stendur í lagatextanum, (Forseti hringir.) heldur einhverju fram sem er í bullandi mótsögn við það sem stendur skrifað.