149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf að koma upp og leiðrétta þau orð sem hv. þingmaður hafði uppi um verklag og störf nefndarinnar. Hann er nú fyrsti þingmaðurinn sem kemur hingað upp og ræðir þetta sérstaklega en er samt ekki einn af þeim þingmönnum Miðflokksins sem mættu á þá fundi sem voru haldnir um þriðja orkupakkann. (Gripið fram í.) Þeir voru margir og spönnuðu sex ef ekki sjö fundi, með öllum þeim gestum sem við kölluðum fyrir, fjölmörgum, og við eyddum öllum þeim tíma nefndarinnar í umfjöllunina, lengdum fundi og settum á aukafundi til þess einmitt að geta rætt málið betur og svarað öllum þeim beiðnum um gestakomur sem komu á þeim tíma. Svo kom engin gagnrýni frá hv. þingmönnum Miðflokksins á að taka málið út eða klára með þeim hætti sem boðað var í síðustu viku. Það er afar sérstakt að koma hér síðan upp og ræða þetta slæma verklag nefndarinnar. Þeim sem sátu þá fundi er alveg ljóst hvað á þeim fór fram. (Forseti hringir.) Þeir gestir voru teknir fyrir nefndina sem var beðið um á þeim tímapunkti. Það er mikill samhljómur meðal allra annarra nefndarmanna og annarra meðlima stjórnarandstöðunnar um að svo hafi verið.