149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:10]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Stutta svarið er nei. Ég tel að núna sé ekki sá tímapunktur. Á þessum tímapunkti í innleiðingarferlinu erum við að tala um algjöran neyðarhemil ef við teldum fyrir því sterk og sannfærandi rök að með innleiðingunni værum við að ganga með alvarlegum hætti á rétt okkar. Og engin rök hafa verið færð fyrir því í þessu máli, ekki nokkur einustu. Þeim fullyrðingum sem ítrekað hefur verið fleygt fram um að í þessu felist einhvers konar framsal á forræði okkar yfir auðlindum okkar er algjörlega hafnað. Þar stendur ekki steinn yfir steini. Að þetta hafi einhver áhrif á líkur eða skuldbindingar okkar til þess að leggja hér sæstreng er algjörlega hafnað. Ekki stendur steinn yfir steini í því að þetta hafi einhver áhrif á eignarhald okkar á orkufyrirtækjum eða skyldur eða skuldbindingar til að einkavæða þau eða eitthvað slíkt. Ekki stendur steinn yfir steini í þeim málflutningi. Við beitum ekki neyðarhemli nema ríkar ástæður séu til, enda vitum við (Forseti hringir.) að slíkt getur leitt okkur á glapstigu þar sem við gætum jafnvel endað með EES-samninginn í algjöru uppnámi.