149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hér hef ég tekið saman umsagnir sem bárust utanríkismálanefnd varðandi þetta mál. Við sjáum að þetta er þykk og mikil bók sem sýnir að það eru margir sem hafa sagt álit sitt á þessu og það er gott. Sýnir það líka að þetta er stórt og mikið mál sem skiptir þjóðina verulega miklu máli.

Ef ég fer aðeins í umsögn sem HS Orka sendi inn þá tók ég eftir einu athyglisverðu. Það segir hér, með leyfi forseta:

„Með 6. gr. frumvarps um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun […] á þskj. 1242 er enn fremur lögð til 45% hækkun á raforkueftirlitsgjaldi. Um leið og viðurkennt skal að sannarlega fylgi opinber kostnaður eftirliti samkvæmt raforkulögum líkt og öðrum lögum þá telur HS Orka rétt að benda á að hækkunin er umtalsverð og viðbúið að hún skili sér í verði á raforku og muni á endanum leggjast á notendur raforku, bæði heimili og fyrirtæki.“

Nú hefur því verið haldið fram í þessum sal af þingmönnum stjórnarliðsins að þessi orkupakki komi ekki til með að breyta neinu varðandi hækkun á rafmagnsverði til heimila og fyrirtækja. Nú sjáum við svart á hvítu að það stenst ekki. Hér er fyrirtæki sem segir það bara beint út að það muni setja þetta út í verðlagið og hækka rafmagn til heimila og fyrirtækja vegna þess að það eigi að hækka raforkueftirlitsgjaldið. (Forseti hringir.) Hv. þingmanni varð tíðrætt um traust í upphafi ræðu sinnar gagnvart stjórnmálamönnum. Það væri gott að fá hans komment hvað þetta varðar.