149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mjög góð spurning. Við fórum yfir tölurnar í þessu og reiknuðum hvernig þetta dreifðist á milli. Þetta er kostnaður — það er í raun verið að borga fyrir eftirlitsstofnunina sem slíka. Jú, það er 45% hækkun á gjaldinu sem er ákveðin krónutala þegar allt kemur til alls. Ekki 45% hækkun á hverri tengingu til hvers notanda heldur hækkar heildargjaldið sem slíkt um 45%. Því gjaldi er síðan deilt niður á alla notendur. Gjaldið er ekki svo rosalega hátt þegar því er deilt á svona margra notendur. Þeir sem nota mesta orku koma til með að borga mest af því. Við reiknuðum þetta einfaldlega út. Við tökum 80% til hliðar sem stóriðjan myndi borga, 80% af því gjaldi, 20% af því myndu falla á heimilin eða tæplega það. Það yrðu u.þ.b. 100 kr. á ári per mann.

Á sama tíma, einmitt út af orkupakkanum, er sá möguleiki að maður geti farið og skipt um birgja og þá eru aðstæður þar sem fólk getur lækkað reikninginn um 30.000 kr. á einu ári með því að skipta frá einum til annars. Þannig að við erum með 30.000 kr. í gróða á móti hundraðkalli í aukinn kostnað. Ég hef engar áhyggjur af þessu.