149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:24]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Á grundvelli þessarar þingsályktunartillögu, nái hún fram að ganga sem ég vona, er gefin út reglugerð. Það er tilkynnt til sameiginlegu EES-nefndarinnar með hvaða hætti við ætlum að innleiða, með lagalegum fyrirvörum, sem við undirbyggjum síðan m.a. með breytingu á raforkulögum sem ég vék að í einhverju andsvari áðan. Þetta er ekkert mjög flókið.

Það eru auðvitað útúrsnúningar og verið að vekja upp einhverja tortryggni um það sem kallast lagalegur fyrirvari. Þetta vefst ekkert fyrir mönnum í Noregi. Þetta vefst ekkert fyrir mönnum í Liechtenstein. Þetta vefst ekkert fyrir mönnum í Brussel en þetta vefst fyrir einhverjum hér inni. Það er bara vegna þess að það er eitthvað annað sem hangir á spýtunni en hv. þingmaður vill vera láta.