149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:03]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir mjög góða ræðu sem var, eins og áður hefur komið fram, söguskýring og kannski útskýring á því hvernig orkan okkar hefur haft áhrif á þjóðina og framvindu hagsældar hér á landi. Þetta hefur verið kynnt hér eins og þetta skipti ekki nokkru máli, þessi innleiðing, ekki nokkru máli. Þetta sé í raun algjört formsatriði sem snýr að — ég eiginlega veit ekki hverju, ef þetta skiptir engu máli vegna þess að í mínum huga skiptir þetta máli.

Þingmaður spyr: Hvað ef við missum tökin á þessu? Tökin á hverju? Jú, það eru þá væntanlega yfirráðin, stjórnin á þessari orkuauðlind okkar, á auðlindinni. Við eigum fleiri auðlindir eins og t.d. fiskstofnana og auðlindir hafsbotnsins í kringum Ísland og jarðvarmann, möguleikann á djúpborunum, möguleikann á því að reisa vindorkugarða á vindasömum svæðum.

Mig langar að fá það betur fram hjá hv. þingmanni: Hvað telur hann að gerist? Verðum við þá eins konar þróunarþjóð sem selur orkuna, auðlindina, óunna úr landi án þess að virðisaukinn verði eftir innan lands? Er það það sem hann óttast eða er það eitthvað annað?