149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

tækifæri garðyrkjunnar.

[16:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir þessa umræðu og ráðherra fyrir að svara. Þetta er, held ég, bara með mikilvægari umræðum sem við höfum tekið á þinginu lengi. Við skulum átta okkur á því að það eru einstaklingar á Íslandi sem hafa sýnt ótrúlega hæfileika til ræktunar. Þá erum við líka að tala um ræktun á ávöxtum og alls konar jurtum utan dyra. Það hefur tekist. Og þá spyr ég: Hvað gætum við þá gert í gróðurhúsum, innan dyra í risagróðurhúsum með allri þeirri hreinu orku sem við höfum og hreinu vatni og án þess að nota skordýraeitur og annað sem er mikið notað erlendis?

Þetta segir mér að við höfum gífurleg tækifæri sem við eigum að reyna að horfa til. Við eigum að hafa metnað. Við erum með ákveðna stefnu í alls konar málum. Af hverju erum við ekki með framtíðarstefnu til næstu tíu ára í einmitt þessum málaflokki um að stórauka framleiðsluna? Við gætum tvöfaldað hana, þrefaldað, jafnvel tífaldað hana. Það verður alltaf hagur fyrir okkur Íslendinga og við eigum líka að horfa á annað í þessu samhengi, heilsueflinguna sem er í gangi. Þar getum við tekið forystu.

Ég segi fyrir mitt leyti: Ef ég á að velja á milli íslensks grænmetis sem ég veit hvaðan kemur eða erlends grænmetis sem ég veit ekkert hvaðan kemur og hvernig hefur verið ræktað, þá vel ég íslenskt. Þess vegna eigum við, í sambandi við raforkuverðið, að láta það ekki stoppa okkur. Ef við getum selt ódýrt rafmagn til framleiðslu t.d. í kísilverksmiðju sem mengar gífurlega þá hljótum við að geta selt rafmagnið á sama verði í svona frábæra framleiðslu.