149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það eru tvö atriði sem ég vil taka hér til í dag vegna umræðu um þriðja orkupakkann. Hið fyrra er ACER, að gefnu tilefni, sem er sameiginleg orkustofnun og er m.a. ætlað að sjá til þess að kaupendum raforku sé ekki mismunað eða orkan niðurgreidd. Þessi ákvæði orkupakkans taka gildi strax við samþykkt hans en með samþykkt skylda Íslendingar sig til að selja þá orku sem þeir kunna að flytja út í framtíðinni á raforkumarkaði ESB eftir þeim reglum sem ESB setur. Enn fremur taka Íslendingar á sig allan stofnkostnað vegna þessara viðskipta hér á landi og greiða fyrir hærra orkuverð.

Þá taka Íslendingar á sig alla markaðsáhættu sem fylgir slíkum viðskiptum innan væntanlegs lagaramma ESB. Í stuttu máli hér er um tæknilega yfirtöku ESB á auðlindum Íslands að ræða.

Hitt atriðið er, með leyfi forseta, „National Regulatory Authorities“, stundum nefnt landsreglari, sem verður fulltrúi Íslands þegar Orkustofnun vinnur að lögbundnum verkefnum samkvæmt tilskipun ESB nr. 72/2009. Þau skal vinna óháð öðrum stjórnvöldum, sem sagt íslenskum í þessu tilviki, með það að markmiði að koma fram stefnumálum ESB, svo sem markaðsvæðingu eftir reglum ESB. Embætti mun vera á íslenskum fjárlögum og taka við yfirstjórnunar og eftirlitshlutverki Orkustofnunar. Taka skal fram að landsreglarinn verður fulltrúi Íslands án atkvæðisréttar. (Gripið fram í.)