149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:51]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir hans fyrirspurn. Hann spyr um sameiginlega yfirlýsingu utanríkisráðherra og orkumálastjóra Evrópusambandsins, sem margoft hefur verið vitnað í hér í umræðum um þetta mál, og spyr hvaða skilning ég leggi í hana. Ég hef komið að því í mínum ræðum hingað til hér í þessum ræðustól að ég tel að þetta sé vinsamleg yfirlýsing og allra góðra gjalda verð, en hún hefur ekkert gildi ef reynir á regluverkið. Hún hefur auðvitað ekkert gildi. Og regluverkið lifir, eins og önnur lög, sjálfstæðu lífi eftir að það hefur verið sett eða innleitt, það lifir sjálfstæðu lífi, alveg sama hvað menn hafa tjáð sig einhvers staðar úti í bæ í einhverjum fréttatilkynningum eða sameiginlegum yfirlýsingum. Það eru í besta falli vinsamleg tilmæli. En þegar reynir á þá lesa menn auðvitað regluverkið. Ef gerðir eru fyrirvarar við regluverkið þá á að gera það á réttum stað en ekki hér innan lands.