149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:42]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er varla hægt að draga aðra ályktun en þá að ríkisstjórnin sé með sínum eigin rökum í umræðu um þriðja orkupakkann að veikja samningsstöðu Íslands, stöðu gagnvart Evrópusambandinu með tilliti til þess fjórða. Þó að ég hafi ekki frekar en hv. þingmenn haft tækifæri til að lesa þessa 1.000 blaðsíðna skýrslu og bíði enn eftir því að stjórnvöld upplýsi okkur um hvers sé að vænta í þessum fjórða orkupakka þá skilst mér að hann feli m.a. í sér að enn lengra sé gengið í því sem stefnt er að með þriðja pakkanum og jafnvel það langt að farið sé að skilgreina landsvæði með tilliti til orkuframleiðslu frekar en lönd. Með öðrum orðum, tekið er enn stærra skref í að setja þjóðríkin út úr myndinni hvað þetta varðar. Það hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um hætturnar sem fylgja því að innleiða þriðja orkupakka nú. Eða telur hv. þingmaður þetta rétt mat hjá mér?