149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir andsvarið. Ég er algjörlega sammála henni og ekki að ófyrirsynju að hún vísar hér ítrekað til fjórða orkupakkans. Ég er eindregið á þeirri skoðun að það sé háskaleikur og ekki í samræmi við þá ábyrgð sem hvílir á löggjafarsamkomunni og alþingismönnum að fjalla um þetta þriðja orkupakkamál öðruvísi en fyrir liggi vönduð greining á innihaldi fjórða orkupakkans og þeim skuldbindingum sem þar kunna að vera sem okkur yrði gert að axla — og þá ekki síst í ljósi þess að við værum komin með þriðja orkupakkann, fullkomlega innleiddan eftir því sem efni standa til.

Ég tel blasa við að orkuverð muni hækka hér í framhaldi af samþykkt þriðja orkupakkans og þá ekki síður þess fjórða. Það er ljóst að við erum með mun lægra verð hér en gerist og gengur í Evrópu og þetta samstarf gengur út á samræmingu.

Einsleitni er lykilorð í Evrópusamstarfinu og það mun kalla yfir heimilin hækkanir á orkuverði og sömuleiðis munu íslensk atvinnufyrirtæki missa það samkeppnisforskot sem þau búa að í þessu tilliti. Það er hluti af hinum ófullnægjandi undirbúningi þessa máls að ekki skuli liggja fyrir greining á þessum orkupakka. Nú var það upplýst af hálfu eins ráðuneytis á nefndarfundi að orkupakka fjögur, það sem liggur fyrir, hefur verið miðlað til samtaka í atvinnulífinu og þau (Forseti hringir.) eru að skoða þetta. En maður spyr sig: Af hverju er þetta ekki sýnt hér á Alþingi?