149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:30]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðu hans. Það liggur fyrir, leyfi ég mér að segja, að fjórði orkupakkinn er til skoðunar í Stjórnarráði Íslands. Það kom fram á nefndarfundi. Ég geri ráð fyrir að það sé á vettvangi iðnaðarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins eftir atvikum. Það kom sömuleiðis fram hjá samtökum í atvinnulífinu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, að þeim gögnum sem fylgja þessum pakka að svo miklu leyti sem hann er tilbúinn, hefur verið miðlað til þessara aðila og þeir hafa þau til skoðunar og hafa haft um einhverra mánaða skeið.

Það verður að segjast eins og er að það er afar sérkennilegt að ekki skuli hafa verið talin ástæða til í þessu ferli, þessu undirbúningsferli að því að samþykkja þennan þriðja orkupakka, að þingmönnum væri gerð grein fyrir stöðu þessa máls eins og það liggur fyrir á vettvangi Evrópusambandsins og það lægi fyrir einhvers konar samantekt eða greining á efni þessara gerða að svo miklu leyti sem þær eru tilbúnar.

Álitsgerð Friðriks Árna og Stefáns Más færir okkur heim sanninn um það hversu nauðsynlegt það er að slíkar gerðir eins og hér um ræðir, eins og til að mynda við sjáum við greiningu þeirra á einstökum gerðum í þriðja orkupakkanum, ég nefni sérstaklega reglugerð 713 — færir okkur heim sanninn um það hversu nauðsynlegt er snemma á ferlinu að rýna þessi gögn mjög nákvæmlega eins og þeir gera í álitsgerð sinni. Við sjáum hverju það hefur skilað. Það hefur skilað því að þeir hringja viðvörunarbjöllum á rúmlega 40 síðum (Forseti hringir.) í álitsgerð sinni.