149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:01]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst það liggja í augum uppi. Það eru reyndar fjölmargar ástæður fyrir því að við ættum að bíða með þessa innleiðingu. Hér höfum við verið að ræða áhrif fjórða orkupakkans. Ég hef nefnt breytingar á þeim gerðum sem verið er að tala um að innleiða hér, 713, 714, 715, sem þegar liggja fyrir frá árinu 2013. Og þetta dæmi sem hv. þingmaður nefnir frá Noregi er enn ein ástæða þess að við ættum að fara okkur hægt í þessu efni.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp úr frétt Viðskiptablaðsins sem birtist þegar norska þingið var búið að afgreiða þetta mál, en þar segir:

„Andstæðingar pakkans færðu rök fyrir því að hann fæli í sér framsal á yfirráðum yfir orkuauðlindum til stofnana ESB, hækkun raforkuverðs og skerta samkeppnishæfni norskrar stóriðju. Stuðningsmenn pakkans færðu hins vegar rök fyrir því að hann hefði ekkert með eignarhald yfir orkuauðlindum eða auðlindastjórnun að gera — það væri einfaldlega hræðsluáróður.“

Er þetta ekki kunnuglegt, virðulegur forseti, og raunar bara nákvæmlega eins og það sem við höfum horft upp á hér? Við höfum ekki frekar en, ímynda ég mér, norskir þingmenn haldið því fram að orkupakkinn snerist um eignarhaldið endilega, nema er lýtur að því að brjóta upp markaðsráðandi fyrirtæki. En þessi leið norskra stuðningsmanna til að gera lítið úr áhyggjum af orkupakkanum í Noregi og kalla þær hræðsluáróður, því miður, endurómar núna í íslenskri umræðu, en fólkið sem sakar okkur um hræðsluáróður er hins vegar ekki tilbúið til þess að skoða málið betur, nýta þá sáttaleið (Forseti hringir.) sem gert er ráð fyrir í EES-samningnum sjálfum.