149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:56]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir hans síðara andsvar. Já, það er nú svo að maður veit ekki hvort maður á að gráta eða hlæja. Þetta er komið á þann stað að við sjáum menn þráast við í þessu máli og halda hlutum fram gegn betri vitund. Nú þekki ég fólk persónulega sem hefur skrifað á þennan hátt eins og tilvitnaðan hv. þingmann, ég hef unnið með honum í öðrum málum í nefndum í þinginu og þekki hann ekki nema að góðu einu.

Þetta hljómar í mín eyru eins og búið sé að leggja línurnar fyrir fólk, að þetta skuli keyrt í gegn hvað sem það kostar. Henni verði bara haldið þessari línu; þetta verði málflutningurinn, hvort sem hann stenst skoðun eður ei. Þessu verði hreinlega troðið ofan í kokið á fólki og svo verður fólki væntanlega boðið upp á eftirrétt, sem er hráakjötsmálið, skömmu síðar. Það er mál sem er nátengt þar sem settir voru fyrirvarar við innleiðingu sem héldu ekki.

Hvernig gengur þetta upp? Hvernig gengur upp að bjóða þjóðinni upp á þetta, hæstv. forseti? Mér er spurn.