149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög merkilegt að lesa og heyra það sem fyrrum hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur að segja um sinn gamla flokk. En ég er ekkert hissa á því að hann skuli ekki þekkja þann flokk, vegna þess að þau fáu atriði sem hrokkið hafa upp úr liðsmönnum Vinstri grænna í þessari umræðu hafa að mestu fjallað um markaðsvæðingu íslenskra auðlinda. Ég hefði nú látið segja að segja mér það þrim sinnum, eins og þeir segja fyrir austan, að slíkt mundi gerast hér á hinu háa Alþingi að liðsmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs gengju fram svo hart fyrir markaðsvæðingu auðlinda Íslands eins og þeir hafa gert sumir hverjir hér í umræðum í þinginu.