149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég verð að endurtaka það sem ég sagði fyrr í dag, ég er alveg furðu lostinn á framgöngu hæstv. ráðherra hér í dag. Ég batt miklar vonir við að hér gæti tekist samtal sem gæti fært menn nær hver öðrum og aukið skilning og samstöðu en framganga hæstv. ráðherra hafði enga slíka eiginleika. Hæstv. ráðherra hefur mál sitt á því að vera með einhverjar dylgjur, ósæmilegar dylgjur um það að einhverjir hér gangi fram í krafti norskra peninga. (Utanrrh: Hver segir það?) Ráðherra þarf ekki annað en að minnast eigin orða. Norskir peningar, norski Miðflokkurinn, Nei til EU, a.m.k. er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra skýri þessi orð sín og af hverju hann er að taka þetta upp í upphafi sinnar ræðu hér.

Hæstv. ráðherra stendur í þeim sporum að hann er að beita sér fyrir grundvallarbreytingum í utanríkisstefnu landsins eins og lesa má í umsögn Jóns Baldvins Hannibalssonar þar sem hann ræðir að menn geti samið um gagnkvæman aðgang að markaði en að ekki komi til greina að fyrir aðgang að markaði komi aðgangur að auðlindum. Það kemur ekki til greina en það er það sem hæstv. ráðherra er að beita sér fyrir hér.

Hann hlýtur að verða að skýra það um leið og hann skýrir það hvaðan hann hefur lýðræðislegt umboð til að standa fyrir þessari breytingu og standa fyrir innleiðingu á þessum orkupakka. Það var ekki minnst á þetta mál í aðdraganda kosninganna. Hæstv. ráðherra þekkir náttúrlega samþykktir sem hafa verið gerðar á vettvangi flokksstofnana Sjálfstæðisflokksins sem virðast ganga þvert á þessa stefnu sem hann er að boða hér.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að afla sér ráðgjafar svo hann megi betur skilja muninn á fréttatilkynningu sem er kannski ein síða eða ein og hálf og ítarlegri lögfræðilegri álitsgerð þar sem það sem er haldið fram er rökstutt, undirbyggt og útskýrt. Það er munur á fréttatilkynningu og ítarlegri lögfræðilegri álitsgerð. Hæstv. ráðherra getur skemmt sér við það að dylgja um að menn hafi ekki lesið gögn. Mér þótti mjög leitt að verða vitni að því að hæstv. ráðherra umgekkst sannleikann svona í hæfilegu kæruleysi í fyrri umr. þegar hann hélt því fram, í svari við spurningu frá mér, að þetta bréf eða fréttatilkynning, hvort sem það nú var, væri hluti af gögnum málsins. Hæstv. ráðherra verður líka að leita sér ráðgjafar um það hvað eru gögn máls. Hann mun fá þau svör að gögn máls séu tillagan og fylgiskjölin sem því fylgja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Herra forseti. Það eru alvarlegar spurningar í þessu máli. Hæstv. ráðherra er með í höndunum álitsgerð færustu manna þar sem niðurstaðan er m.a. sú að með innleiðingu þessa orkupakka fái erlendir aðilar a.m.k. óbein áhrif, eins og það er orðað, á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar. Þetta stendur þarna. Hann verður að skýra þessa stefnu sína betur og hann verður sömuleiðis að skýra þennan fyrirvara betur. Heyrði ég virkilega rétt að fyrirvarinn sé í meirihlutaáliti þingnefndar, þá væntanlega atvinnuveganefndar eða utanríkismálanefndar? Mér er þetta ekki ljóst. (Forseti hringir.) Hann segir að það sé engin ástæða til frestunar. Við höfum rakið það hér fyrir ráðherra að fjölmörgum spurningum er ósvarað og þangað til þeim hefur verið svarað er ekki hægt að samþykkja þetta mál. (Forseti hringir.) Það er ástæðan fyrir frestun.