149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:14]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er því miður svo að eins og umhverfi Orkustofnunar er í dag þá uppfyllir það ekki þau ákvæði sem felast í tilskipun 72/2009, sem ég er með hér fyrir framan mig. Þar er kveðið á um það hverjar skyldur og hvert valdsvið eftirlitsyfirvalda er. Í 35. gr. IX. kafla, sem fjallar um landsbundin eftirlitsyfirvöld, segir að hvert aðildarríki skuli nefna eitt landsbundið eftirlitsyfirvald.

Fjallað er um skipulag aðgangs að kerfi, markaðsopnun og gagnkvæmni, tilnefningu og sjálfstæði eftirlitsyfirvalda. Það er í raun ramminn sem Orkustofnun skal settur. Hann felst í tilskipuninni. Við munum sjá breytingar á lögum hér ef þetta verður innleitt í þessa veru. Þegar allt verður um garð gengið munu lög um Orkustofnun líta út í ætt við þetta skjal. Þannig sýnist mér þetta gerast allt saman. Það er eðlilegt vegna þess að Evrópusambandið er með það yfirlýsta markmið, Evrópusambandið veit alveg hvað það vill og hvert það vill fara og þó að einhverjar lítils háttar hindranir séu í veginum var þess að vænta. Þess vegna er talað um að ryðja úr vegi hindrunum, pólitískum eða viðskiptalegum, hverjar sem þær kunni að vera. Það er akkúrat hlutverk þessarar stofnunar en til þess þarf hún að vera óháð duttlungum stjórnmálanna hér heima.