149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:25]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Það er leitt að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hefur yfirgefið þingsalinn, vegna þess að ég ætlaði mér í þessari ræðu að fara enn frekar ofan í upprunaábyrgðir raforku, sem er mjög áhugavert viðfangsefni og hefur margoft verið spurt um. Margir furða sig á því hvernig standi á því að í bókhaldi okkar Íslendinga sé að finna þá staðreynd að raforka sem notuð er í stórfyrirtækjum eigi uppruna sinn í kolavinnsluverum eða kjarnorkuverum að stórum hluta. Það er mjög áhugavert.

Það vildi þannig til að 7. nóvember síðastliðinn sendi ég inn fyrirspurn til hæstv. ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um sölu á þessum upprunaábyrgðum, bæði um magn og verð og hverjir seldu og hverjir keyptu og svo ýmis áhrif af þeirri sölu, hver hugsanleg áhrif af þessari sölu gætu verið. Mjög áhugavert og tengist auðvitað þessu máli, sérstaklega verðlagningu á raforku og hugsanlegri hækkun á raforku til neytenda á Íslandi. Þetta er að því leytinu til nátengt hugsanlegum verðbreytingum í framtíðinni. Nátengt.

Ég spurði um hversu margar upprunaábyrgðir raforku væru seldar. Ráðherra svaraði að því leytinu til hversu margar upprunaábyrgðir væru seldar innan lands og hversu margar upprunaábyrgðir væru seldar í útlöndum. Svarið var allt í teravattstundum, en 1 teravattstund er það sama og 1.000 gígavattstundir, en 1 gígavattstund er það sama og 1.000 megavattstundir. Þannig að það þarf milljón megavattstundir til að ná 1 teravattstund, til að setja svarið í eitthvert samhengi.

Í svari ráðherra, sem barst mér núna í lok apríl síðastliðinn — það tók hæstv. ráðherra næstum sex mánuði að svara þessari fyrirspurn, þannig að það hlýtur að hafa verið unnið vel að henni — segir að á árinu 2017 hafi 14,8 teravattstundir verið seldar í útlöndum, sem sagt frá Íslandi til erlendra aðila á meðan á Íslandi voru seldar 3,6. Það hefur aukist mjög hratt síðustu ár. Upprunaábyrgðir seldar í útlöndum á árinu 2016 voru 13,1. Árið þar áður 5,4 teravattstundir, þannig að það hefur aukist mjög hratt undanfarin ár. Þetta er samkvæmt upplýsingum Orkustofnunar. Við vorum einmitt að ræða um Orkustofnun hér áðan þannig að þeir hafa vítt starfssvið. En sala á upprunaábyrgðum innan lands er mun minni og hefur aukist minna, úr 1,1 teravattstund 2015 í 3,6 teravattstundir 2017.

Í svari ráðherra kemur fram að ekki liggi frammi opinberar upplýsingar, eins og það er orðað, um heildarverðmæti seldra upprunaábyrgða íslenskra orkufyrirtækja, ekki heildarverðmæti. Til að áætla heildarverðmætið segir í svari ráðherra að á árinu 2018, á síðasta ári, er áætlað að heildarsala á þessum upprunaábyrgðum, sem er einhvers konar vottorð um að raforkan sem við notum sé upprunninn í endurnýjanlegum orkugjöfum, sem stundum er ekki raunin. En maður getur fengið vottorð um að maður hafi greitt fyrir að geta sýnt fram á að maður noti slíka orkugjafa.

En á árinu 2018 fá íslensku raforkufyrirtækin sem sagt 800–850 milljónir fyrir sölu á þessum ábyrgðum, þannig að það eru verulegir (Forseti hringir.) fjármunir, herra forseti.