149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þarna kom hann inn á mjög athyglisverðan þátt. Ég verð nú að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér það sem hv. þingmaður nefndi, hvort það séu aðilar, fyrirtæki að selja orku með þeim hætti sem hann lýsti sem ekki eru undir þessu sameiginlega stjórnsýsluapparati. Hins vegar er full þörf á því að fá þær upplýsingar og fá sjónarmið þeirra aðila, sem eru örugglega einhverjir, á því hvernig þeir sjá fyrir sér t.d. þessa stofnun, ACER.

Ég held að það sé bara mjög gott innlegg inn í þessa umræðu og lýsi nauðsyn þess að hér fari fram djúp og upplýsandi umræða um þetta mál, að leitað sé upplýsinga víða til þess að hægt sé að mynda sér nákvæma skoðun á því hvernig þetta muni þróast í framtíðinni.

Þarna er verið að færa Evrópusambandinu vald sem við eigum að mínum dómi að hafa sjálf. Þetta er valdframsal, eða það verður það þegar sæstrengurinn er komin. Það er bara verið að leggja grunninn að þessu öllu saman með þessum orkupakka þrjú. Síðan kemur orkupakki fjögur. Og síðan fylgja þessir orkupakka allir á eftir.

Heimildin felst í því að samþykkja orkupakka þrjú, svo kemur tengingin og þá verður ekki aftur snúið. Þá getum við ekki sagt því upp og erum búnir að gangast undir þessar skuldbindingar. Þá stjórnum við ekki magninu á raforkunni sem fer út úr landinu. Við stjórnum ekki verðinu heldur.

Viðskiptalega séð er þetta t.d. mjög óskynsamlegt. Og svo höfum við náttúrlega hinn þáttinn, sem er valdframsalið, (Forseti hringir.) sem er náttúrlega það versta.