149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það ber allt að sama brunni hvað það varðar að andstaða stuðningsmanna innleiðingar undir þeim formerkjum sem nú er lagt upp með verður alltaf skrýtnari og skrýtnari. Það verður alltaf skrýtnara og skrýtnara að menn séu ekki tilbúnir að skoða þann kost að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar á grundvelli 102. gr.

Maður veltir fyrir sér hvað mönnum og konum gangi til. Ég setti fram kenningu hér fyrr í kvöld um að stuðningsmönnum orkupakkans og innleiðingarinnar þyki nóg komið hvað það varðar að þurfa að standa frammi fyrir ókláruðu máli sem þeim líður ekkert sérstaklega vel með og þess vegna vilji menn ekki fara í þá vegferð að framlengja líf þessarar vinnu þannig að þeir þurfi að koma aftur að henni að aflokinni meðferð í sameiginlegu EES-nefndinni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann haldi að sú kenning sem ég hef sett fram um að menn séu með þessu fyrst og fremst að forða sjálfum sér frá því að þurfa að handleika þriðja orkupakkann oftar en nauðsynlegt er sé möguleg skýring á því að ekki megi ræða einu orði að nýta 102. gr. Eða heldur hv. þingmaður að einhverjar aðrar skýringar séu mögulegar sem ég hef ekki áttað mig á?