149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Orkan sem kemur úr auðlindum okkar er skilgreind sem vara og um hana gilda sömu reglur og um aðrar vörur sem þurfa að flæða frjálst samkvæmt fjórfrelsinu svokallaða. Ef við horfum á það í samhengi við vilja fyrirtækis sem er staðsett í Þýskalandi, Danmörku, eða bara í Noregi, og vill reisa vindorkugarð á Íslandi, leggja sjálft sæstreng, flytja sína vöru út sem það framleiðir á Íslandi, þá getur íslenska ríkið ekki, samkvæmt því sem a.m.k. fjórir lögmenn hafa bent á, komið í veg fyrir það nema að eiga yfir höfði sér samningsbrotamál eða brot á samningum við Evrópska efnahagssvæðið, sem getur væntanlega leitt til skaðabótakröfu og mögulega líka til þess að íslenska ríkið verði skyldað til að leyfa viðkomandi fyrirtæki að leggja sæstreng o.s.frv. En það er alveg kristaltært, og ég held að enginn hafi mótmælt því, að orkan er vara.

Það er svo sérstakt, ef maður setur það í samhengi við það hvernig pólitíkin breytist stundum, að Vinstri græn, sem hafa nú ekki vilja markaðssetja auðlindirnar, ekki viljað markaðssetja náttúru Íslands, stuðla nú að því að orkan, varan orka, fái enn þá meira markaðslegt og sölulegt vægi en áður. Þau eru jafnvel tilbúin til að innleiða gerð sem segir að landgrunnið og efnahagslögsagan skuli lúta sömu lögmálum, þ.e. að ekki megi koma í veg fyrir að þessi vara, markaðsvæðing orkunnar, að orkan geti flætt yfir landamæri.