149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:21]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég fór að velta því fyrir mér þegar ég beið hér á hliðarlínunni eftir að stíga upp í pontu hvort það væru nokkur lög sem eru almennt jafn vel þekkt og umferðarlög. Þetta eru lögin sem við byrjum að fá fræðslu um strax í leikskóla og höldum áfram formlegri fræðslu á sviði umferðarlaga alveg þar til við tökum bílpróf, ef við kjósum að gera svo, þannig að væntanlega er almenningur ekki meðvitaðri um inntak neins lagabálks á sama hátt og þessara laga. Ég reikna því með að við höfum flest, ef ekki öll, einhverjar skoðanir á umferðarlögum. Við höfum væntanlega flest gerst brotleg við þau. Við höfum sum jafnvel verið tekin fyrir þau brot. En (Gripið fram í.) þetta endurspeglar kannski líka að umferðarlögin segja okkur dálítið hvernig stór hluti samfélagsins á að vera, hvernig við eigum að komast á milli staða, hvort sem er á götum, gangstéttum, reiðstígum, hjólastígum eða hvar það er.

Umferðarlög hafa kannski í tímans rás frekar beinst að því að mynda ramma utan um öryggissjónarmið, að setja reglur um hámarkshraða, reglur um hversu hátt magn áfengis í blóði má vera til að tryggja að fólk sé ekki fullkomlega ófært um að stýra bifreiðum og lögin hafa jafnframt haft það markmið að tryggja greiðar samgöngur. Greiðar og öruggar samgöngur eru hér, líkt og í samgönguáætlun og annars staðar þar sem um þessi mál er fjallað, grundvallaratriði.

Það sem hefur síðan bæst við á síðustu árum er sú vitund okkar um að umferðarlög megi nota til að ná markmiðum á sviðum sem kannski eru ekki jafn augljóslega tengd umferðinni, og varða sérstaklega lýðheilsu og nú síðast loftslagsmál. Þess vegna er nokkuð stórt framfaraskref að í greinargerð frumvarpsins sé sérstaklega kveðið á um að tilgangur umferðarlaga sé að tryggja að fólk geti komist á sem öruggastan hátt á milli staða án tillits til samgöngumáta. Í frumvarpinu er öðrum samgöngumátum en þeim að aka um á einkabíl gert nokkuð hátt undir höfði og kaflinn um hjólreiðar, sem löngu var kominn tími á að uppfæra, er færður til nokkuð meira nútímahorfs en hann var áður.

Mig langar þó að nefna eitt atriði varðandi hjólreiðarnar, sem tengist öryggis- og verndarbúnaði óvarinna vegfarenda, eins og það heitir í yfirskrift 79. gr. frumvarpsins, en þar er lagt til að festa í lög þá reglu sem til þessa hefur verið kveðið á um í reglugerð gefinni út af ráðherra, að barn yngra en 15 ára skuli nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar. Það hefur verið gagnrýnt af talsmönnum samtaka hjólreiðamanna að það geti haft neikvæðar afleiðingar að festa í lög þær reglur frekar en að byggja á reglugerðarheimildinni, ég ætla að láta það liggja milli hluta. En ég held að í grunninn getum við verið sammála um að í þeim aðstæðum þegar börn eru að stíga sín fyrstu skref í umferðinni og eru að læra að hjóla og ná jafnvægi og þeim líkamlega þroska sem þarf til að geta farið um af öryggi á reiðhjóli í umferðinni, sé þeim hollara að nota hjálm við hjólreiðarnar.

Hins vegar er lagt til í áliti umhverfis- og samgöngunefndar að þessi skylda um notkun hjálms færist upp í 18 ár, úr 15 árum í 18 ár. Og því gefið undir fótinn í nefndaráliti, sem ég fékk staðfest frá flutningsmanni nefndarálitsins að væri hugmyndin, að þessi hjálmaskylda muni á endanum þróast á þann hátt að hún nái yfir alla sem stíga á reiðhjól.

Ég vil, virðulegur forseti, gjalda varhuga við hugmynd um almenna hjálmaskyldu. Hún gefur þá ímynd af hjólreiðum að þær séu hættulegri en þær eru kannski almennt. Vissulega eru ákveðnir hópar hjólreiðamanna sem eru útsettari fyrir óhöppum en aðrir og við vissar aðstæður er eðlilegt að fólk noti hjálma og alveg spurning hvort þurfi einu sinni að festa það í lög að þeir sem stunda kapphjólreiðar eða fjallabrun noti hjálma þar sem hættan er mest. En þegar við erum farin að tala um að hækka mörkin úr 15 árum upp í 18 ár er ákveðin eðlisbreyting á ferð sem mér finnst ekki ígrunduð nógu vel í áliti umhverfis- og samgöngunefndar.

Í nefndarálitinu kemur fram að sjónarmið samtaka hjólreiðamanna um að fella hjálmaskylduna úr lögum hafi ekki verið studd nógu miklum rannsóknum eða rökum og þar með hafi ekki verið hægt að víkja frá tillögu ráðherra um 15 ára mörkin með nógu sterkum rökum. En sama finnst mér gilda um tillögu nefndarinnar um að hækka upp í 18 ár. Þar þykir mér rökin byggja meira á einhverri tilfinningu fyrir því að þetta sé hið rétta að gera. Ég held að hér sé rétt að staldra við og leggja tillöguna til hliðar og fela ráðuneytinu að skoða þetta nánar. Þetta er t.d. ekki í anda þess sem barnasáttmálinn leggur okkur fyrir, að börn axli ábyrgð í samræmi við aldur og þroska. Þannig eru börn áður en þau verða fullorðin, 18 ára, farin að gera ýmislegt sem heyrir til heims fullorðinna frekar en heims barna. Svo maður nefni bara nærtækt dæmi mega einstaklingar sem eru börn að lögum keyra bíl, 17 ára gömul fá þau bílpróf. Ég held að það að bera ábyrgð á eigin öryggi í umferðinni geti verið ágætt dæmi um slíka stigvaxandi ábyrgð barna á eigin lífi.

Svo er hægt að horfa á önnur ákvæði frumvarpsins þar sem 15 ára aldursmörkin eru viðhöfð og sýna að 15 ára börnum er t.d. treystandi til að bera ábyrgð á að nota öryggisbúnað í bifreiðum. Í 77. gr. frumvarpsins kemur fram að ökumaður skuli sjá um að farþegar yngri en 15 ára noti öryggis- og verndarbúnað, sem sagt bílbelti, þannig að á tímabilinu 15–18 ára ber barn sjálft ábyrgð á öryggi sínu að þessu leyti.

Eins er í frumvarpinu samkvæmt 62. gr. 15 ára börnum leyft að stjórna dráttarvélum til landbúnaðarstarfa. Ég verð að viðurkenna, forseti, að það er skrýtið, svo ekki sé meira sagt, að börn sem eru 15 ára ráði því sjálf hvort þau brjóti lög um bílbeltanotkun. Þau ráða því sjálf hvort þau keyri dráttarvél en við ætlum að taka af þeim forræði á þeirri ákvörðun hvort þau setji upp hjálm á hjóli þegar þau fara t.d. milli heimilis og skóla.

Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar er farið yfir banaslys sem átti sér stað á Nesjavallaleið vestan við Dyrfjöll 22. maí 2017. Mér finnst dálítið óþægilegt að vera að ræða lagabreytingar út frá andláti eins tiltekins manns, en þetta er svo sem dæmi sem þarf að nýta sér til að gá hvort einhverjir annmarkar séu á framkvæmd laganna. Í nefndarálitinu er bent á að í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa sé kallað eftir hjálmanotkun, að binda hjálmanotkun í lög, m.a. í ljósi þess að hinn látni hafi verið hjálmlaus þegar slysið átti sér stað.

Í orsakagreiningu nefndarinnar kemur fram að hjólreiðamaðurinn hafi ekki verið með hjálm en jafnframt að hann hafi misst vald á hjólinu á talsverðum hraða sem nefndin áætlar að hafi verið um 40 km og að einn af orsakaþáttunum gæti verið sá að með farangri hafi hjólið vegið 31 kíló. Þarna erum við að tala um eitt tiltekið slys þar sem hjálmleysi var orsakaþáttur, og hraði og þyngd hjóls, þ.e. erfiðara er að hafa stjórn á þeim eftir því sem þau þyngjast. Þetta þrennt verkaði allt saman með þeim skelfilegu afleiðingum sem raun bar vitni.

Það sem þetta segir mér hins vegar er ekki að við þurfum að skylda alla til að nota hjálm, heldur að við þurfum að athuga hvort ekki megi binda reglurnar frekar aðstæðum hverju sinni. Um það eigum við líka nóg dæmi í þessum málaflokki. Til dæmis er þess almennt krafist að fólk noti þriggja punkta öryggisbelti í bílum, en í akstursíþróttum þar sem áhættan er meiri þurfa beltin að vera fjögurra eða fimm punkta og í rútu mega þau vera tveggja punkta. Ein regla er ekki alltaf það sem nær að fanga allt samfélagið.

Það sem situr eftir í mér er að þótt ekki hafi verið nógu sterk rök til að fella skylduna út, eins og samtök hjólreiðamanna fóru fram á, þykir mér á sama hátt ekki vera sterk rök fyrir því að herða reglurnar eins og nefndin leggur til.

Svo ég komi aðeins að umhverfismálunum aftur, forseti, og það er kannski rétt að ég upplýsi forseta um það ef hann hefur ekki kíkt inn á Strava í morgun, að sá sem hér stendur hjólaði í vinnuna í morgun. Og það er voðalega gott. Forseti hefði kannski gott af því að hjóla stundum í vinnuna því að það kemur manni í gott skap. (Gripið fram í.) Já, það hressir mann fyrir langa vökufundi og hefur jafnframt þau áhrif að heilsa samfélagsins vex hröðum skrefum fyrir hvert það prósent ferða sem við förum úr kyrrstöðusamgöngumátanum eins og þeim að sitja í bíl yfir í virkan samgöngumáta eins og að ganga eða hjóla. Það að fleiri hjóli hefur líka jákvæð áhrif á nærumhverfið. Það minnkar svifryksmengun eftir því sem bílum fækkar á götunum og þetta hefur jákvæð áhrif á þróun loftslagsmála, af því að hjólreiðamaður losar ekki meiri koltvísýring en sem nemur því sem hann getur andað frá sér, á meðan bíllinn getur brennt talsvert meiru.

Það sem skiptir máli til að við styðjum við þessa þróun er svo ótal margt. Við þurfum að vera fyrirmyndir fyrir börnin okkar, hjóla með þeim í skólann og síðan áfram í vinnuna. Við þurfum að byggja áfram upp innviði fyrir hjólreiðar eins og hefur tekist ágætlega til á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum og við þurfum að ala börn upp í ákveðinni menningu, að hjólreiðar séu jafn sjálfsagður samgöngumáti og hver annar og að þau þurfi ekki að hræðast þær, heldur séu þau örugg, bæði vegna þess að þau séu komin með sérstaka innviði sem þau geta hjólað á, en líka vegna þess að ekki er verið að ýta stöðugt að fólki þeirri ímynd að það að hjóla á 18 km hraða meðfram Sæbrautinni, eins og ég gerði í morgun og forseti sá á Strava, geti verið lífshættulegt. Róleg hjólaferð innan borgarmarkanna er einhver öruggasti samgöngumáti sem hægt er að finna sér.

Ég gleymdi náttúrlega að láta fylgja sögunni, forseti, að ég var hjálmlaus í morgun en hefði væntanlega ekki hlotið nein höfuðmeiðsli ef ég hefði álpast til að detta af hjólinu á þeim litla hraða. Hins vegar held ég að nágranni minn, sem býr á efri hæðinni og fór í gær utan til að keppa í 350 mílna malarhjólreiðakeppni — ég held að hann hafi hjálm á hausnum af því að þar eru aðstæðurnar allt aðrar en á Sæbrautinni. En væntanlega dugar skynsemin á þennan kappsama nágranna minn, þó að sjálfsagt megi skoða það að setja þá skynsemi í einhvern lagabúning gagnvart þeim hlutum hjólreiðamanna sem þurfa þennan varnarbúnað.

Virðulegur forseti. Mig langar að nefna rétt að lokum að á mánudaginn er alþjóðlegur dagur reiðhjólsins og ég held að færi vel á því að við myndum fagna honum og halda upp á hann með því að leggja til hliðar þessa hugmynd um að hækka hjálmaskylduna upp í 18 ár, en líka að hætta að einblína svona mikið á þetta frauðplast sem sumir setja á hausinn þegar þeir hjóla, af því að umskiptin sem þarf á samgönguvenjur fólks, að koma því úr bílum og yfir á einhverja aðra samgöngumáta, eru svo miklu stærri en þessi eini hjálmur. Þegar við erum að bregðast við neyðarástandi í loftslagsmálum eins og við erum að gera þessa dagana, þá skýtur skökku við að við ætlum að láta umferðarlögin, þann lagabálk sem öll börn læra frá unga aldri, endurspegla það að hjóla í skólann geti verið hættulegra en að ganga þangað og þess vegna þurfi hjálm á hausinn.

Ég velti fyrir því fyrir mér hvort hægt væri að leggja þessa tillögu til hliðar sem hér er lögð fram af nefndinni um að hækka aldurinn upp í 18 ár, og beina því frekar til ráðuneytisins að skoða þessi mál almennilega þannig að hægt sé að taka ákvörðun um nauðsynlegan öryggisbúnað hjólreiðamanna við þær aðstæður sem þeir eru í hverju sinni því að þær eru ekki allar sambærilegar, og hvort hægt væri að taka þá umræðu á grundvelli meiri gagna en við höfum hér fyrir framan okkur. Eins og málið stendur þykir mér frumvarp ráðherra vera eina trygga leiðin áfram varðandi hjálmaskylduna.