149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni andsvarið. Ég gæti ekki verið meira sammála hv. þingmanni, það er bara nákvæmlega þannig. Það skortir allt sem heitir aðgerðaáætlun og það sem ég legg áherslu á að kallað verði eftir, að við sjáum í rauninni hvað á að gera til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Fólkið í fyrirrúmi, það er náttúrlega alveg frábært að setja einhver svona orð á blað. En hvernig getum við talað um að fólkið sé í fyrirrúmi þegar ég bendi á það í ræðu minni hvernig fólki er í raun mismunað í heilbrigðiskerfinu eftir búsetu? Og hvað lýtur að mönnun þá sjáum við og það hefur komið fram á nefndarfundum hv. fjárlaganefndar að staðið hefur verið að því að byggja t.d. hjúkrunarheimili með óhagkvæmum hætti. Allt of litlar einingar þar sem þarf að manna allt upp á nýtt. Þar sem hefur ekki einu sinni verið hægt að manna þau rými sem þegar eru til staðar.

Á meðan sitjum við uppi með þennan svokallaða fráflæðisvanda á Landspítala, sem eru örugglega dýrustu úrræði í heimi sem einstaklingar þurfa að búa við. Einstaklingar sem vilja fara heim eða einstaklingar sem eru tilbúnir að fara í þau úrræði sem hjúkrunarheimilin hafa upp á að bjóða. Það er í rauninni næstum sama hvert maður lítur. Mér finnst þetta bara vera eitt gatasigti eins og það er. Algjört úrræðaleysi í aðgerðaáætlun, eins og ég segi, og klætt í einhvern fínan kjól og fallega framtíðarsýn, en ekkert er um það hvernig á að ná henni eða fylgja henni eftir.