149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Ég er sammála hv. þingmanni, þetta er knappur tími til að ræða svona djúp álitaefni. Við tölum alltaf um ábyrgðina sem á að fylgja frelsi, að tjáningarfrelsi fylgi vissulega ábyrgð og að við getum verið sótt til saka fyrir orð okkar, meinsæri o.s.frv. Það má alveg velta fyrir sér hvort stjórnmálamenn njóti skjóls í einhverju tjáningarfrelsi ef þeir eru vísvitandi að blekkja almenning. Erum við ekki að brjóta gegn grunnskyldum okkar í lýðræðislegu samfélagi ef við gerumst sek um slíkt? Það myndi ég halda. Hvort sem það telst til sakamála eða ekki er alveg ljóst að stjórnmálamenn sem beita slíkum meðulum eru að bregðast skyldum sínum við lýðræðisleg samfélög. Traust verður aldrei reist á lýðræðislegum samfélögum öðruvísi en að stjórnmálamenn sýni lágmarksheiðarleika. Þess vegna finnst mér mjög áhugavert að það sé verið að sækja Boris Johnson (Forseti hringir.) til saka fyrir hreinar og beinar lygar og vona að hið sanna komi í ljós í þeim málaferlum.