149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[17:56]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið og gott að nefna þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi vegna þess að því verkefni var hrint úr vör meðan tillagan var til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Þegar tillagan kom til nefndarinnar var búið að eyrnamerkja 6 milljónir í það verkefni. Í millitíðinni fundust aðrar 6 milljónir og verkefnið fór í gang sem endurspeglar kannski hversu margt er að gerast víða í stjórnkerfinu á meðan við erum að vinna slíkt.

Varðandi stuðning við Aflið skoðuðum við ekki sérstaklega stuðning við nein félagasamtök. Hér eru kannski breiðu strokurnar í áætluninni, en stuðningur við félagasamtök er eitthvað sem — nú gleymi ég alltaf hvar ég er með þetta. Það er í rauninni tvennt sem við nefnum. Annars vegar erum við með Jafnréttissjóð til næstu fimm ára sem hefur að nokkru leyti sett sér þá áherslu að styrkja verkefni sem vinna gegn ofbeldi. Síðan erum við með stuðning af safnliðum ráðuneyta sem er ekki neitt kostnaðarmetinn í áætluninni en mætti fara að berjast fyrir því að ráðherrar næðu að hækka ár frá ári. Þar væri hægt að skoða einhvers konar þjónustusamninga milli ráðuneyta og félagasamtaka eins og við þekkjum svo sem á ýmsum sviðum.