149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen kærlega fyrir yfirferðina. Ég sit í velferðarnefnd sem áheyrnarfulltrúi og ég tek undir með hv. þingmönnum, það voru töluverð vonbrigði að átta sig á því á síðustu skrefum eiginlega þessa máls að það hafi komið ekki betur klárað út. Mig langar í fyrstu að fá álit hv. þingmanns á þessu vegna þess að nú hefur hún stýrt nefnd sem er töluvert málaþung, með mörg mál og mörg þeirra hafa verið í samráðsgátt og hafa tekið breytingum þar áður en þau koma inn til þinglegrar meðferðar. Þetta mál fer í þann farveg en enginn tekur eftir því að þarna eru stórir hlutaðeigandi aðilar, dómsmálaráðuneyti annars vegar og síðan löggæslan, sem stíga ekki inn og koma ekki fram með sínar athugasemdir, annaðhvort af því að þeir voru ekki beðnir um það eða þeir hunsuðu beiðni um það. Það verður að segjast eins og er að mönnum bar einfaldlega ekki saman þegar nefndin reyndi að komast til botns í þessu. Það er kannski ekki stóra málið hér heldur að það liggur alveg ljóst fyrir að við í nefndinni vorum sammála um að við myndum ekki samþykkja mál sem væri þannig vaxið að ekki væri ljóst að réttur neytenda yrði tryggður lagalega, ég tala nú ekki um refsiábyrgð starfsmanna. Þetta er því eðlilegur farvegur.

Ég er hins vegar bara að velta fyrir mér hvort eitthvað sé hægt að gera vegna þess að við erum að stíga fyrstu skrefin með því að nýta samráðsgáttina. Þó að þetta sé klárlega skýrasta dæmið um að hún nýtist ekki sem skyldi vegna þess að menn stíga ekki þar inn hefur það komið fyrir í öðrum málum að stórir aðilar koma ekki inn á þessum fyrstu stigum af því að þeir vita ekki af því eða telja ekki ástæðu til. Það hefur síðan áhrif á þinglega meðferð. Er eitthvað sem hægt væri að breyta í þessu ferli að mati formanns í ljósi þessarar reynslu þegar samráðsgáttin er til staðar og málið ætti að vera í nægilegu samráðsferli (Forseti hringir.) að koma í veg fyrir að svona gerist, að það séu tvö ráðuneyti og aðrir opinberir aðilar sem einfaldlega eru ekki (Forseti hringir.) tilbúnir með sína skoðun þegar málið á að vera á lokametrunum?